Snæddi með starfsfólki Múlalundar

Múlalundur Morgunblaðið/G.Rúnar

GÓÐ stemning ríkti á Múlalundi í hádeginu í gær þegar Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra tók þátt í árlegu jólahlaðborði starfsmanna.

Múlalundur Morgunblaðið/G.RúnarAð sögn Helga Kristóferssonar, framkvæmdastjóra Múlalundar, er mikill annatími hjá fyrirtækinu nú í desember, þar sem starfsmenn vinna við pökkun jólagjafa fyrir hin ýmsu fyrirtæki auk þess að vinna við vörur sem fara í sölu í janúar. Þar er m.a. um að ræða hin víðfrægu Egla-bréfabindi ásamt öllu því sem tilheyrir reikningshaldi.

"Við eigum mikið undir því að fyrirtæki velji "rétt" í janúar, þ.e. vörur frá okkur, því salan á vörum okkar í janúar er grundvöllur alls starfsins sem fram fer hér í Múlalundi það sem eftir er árs."

Að sögn Helga er Múlalundur elsti verndaði vinnustaðurinn á landinu því hann hefur verið starfræktur síðan 1959. Alls starfa hátt á fimmta tug starfsmanna hjá Múlalundi. Aðspurður segir Helgi starfsmenn vinna mislengi hjá fyrirtækinu, allt eftir þörfum. "Fólk vinnur hér allt frá sex mánuðum til nokkurra ára. Það fer allt eftir því hversu mikla endurhæfingu einstaklingurinn þarf til þess að komast aftur út í þjóðfélagið," segir Helgi og bendir á að árlega skili Múlalundur 12-15 einstaklingum aftur út í þjóðfélagið, ýmist í skóla eða vinnu, sem sé vitanlega afar dýrmætt bæði fyrir þjóðfélagið og fyrir sig persónulega. "Það ánægjulegasta við starfið er einmitt að fylgjast með framförum einstaklinganna og sjá þá styrkjast." Morgunblaðið laugardaginn 16. desember 2006.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *