Sjálfvirk afsláttarkort

Tryggingastofnun mun hefja sjálfvirka útgáfu á afsláttarkortum fyrir læknis- og heilsugæsluþjónustu um næstu áramót. Nýja kortið er liður í viðleitni Tryggingastofnunar til að auðvelda sjúkratryggðu fólki að nálgast rétt sinn. Áfram er samt ástæða til þess að geyma nótur því upplýsingar sem TR hefur að byggja á eru takmarkaðar.

Árlegar hámarksgreiðslur sem almenningur þarf að greiða fyrir læknis- og heilbrigðisþjónustu eru eftirfarandi *:

Kr. á ári

Einstaklingar

18.000

Elli- og örorkulífeyrisþegar sem greiða lægra gjald fyrir læknis- og heilsugæsluþjónustu

4.500

Öll börn yngri en 18 ára í sömu fjölskyldu

6.000

Þegar hámarksgreiðslum er náð á fólk rétt á afsláttarkorti.

Hingað til hefur þurft að safna greiðslukvittunum og framvísa þeim hjá Tryggingastofnun til að fá afsláttarkortið.

Frá áramótum verður sú breyting á að afsláttarkortið verður sent sjálfkrafa heim til þeirra sem ná hámarksgreiðslum ef upplýsingar um það eru til hjá Tryggingastofnun.

Endurgreiðslur verða lagðar beint inn á bankareikninga einstaklinga.

Tryggingastofnun berast upplýsingar frá sjálfstætt starfandi sérfræðingum sem eru með samning við Tryggingastofnun um flestar greiðslur sjúklinga fyrir þjónustu þeirra.

Tryggingastofnun berast hins vegar ekki upplýsingar frá heimilis- og heilsugæslulæknum eða sjúkrahúsum.

Þessum gögnum þarf fólk eftir sem áður að safna saman og senda til þjónustumiðstöðvar eða til umboða Tryggingastofnunar til að fá afsláttarkortið.

Greiðslur fyrir eftirtalda þjónustu gilda upp í afsláttarkort:

  • komur á heilsugæslustöð eða til heimilislæknis
  • vitjanir lækna
  • komur á slysadeild og bráðamóttöku sjúkrahúsa
  • komur til sérfræðilækna utan sjúkrahúsa
  • komur til sérfræðilækna á göngudeild sjúkrahúsa
  • rannsóknir á rannsóknastofum
  • geisla- og myndgreininga og beinþéttnimælinga
  • sérfræðiviðtöl hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Reikningar frá hjartalæknum gilda einnig upp í afsláttarkort ef sjúklingar hafa fengið tilvísun frá heimilislækni.

Kostnaður vegna þjálfunar, lyfja, tannlækninga o.fl. er hins vegar ekki tekinn með inn í hámarksupphæðina og veitir ekki rétt til afsláttarkorts.

Útgáfa á nýja afsláttarkortinu hefst 1. janúar 2007 og gildir kortið frá útgáfudegi og út almanaksárið.

Það er grænt plastkort líkt og greiðslukort.

Væntanlega koma fyrstu kortin til sjálfvirkrar afgreiðslu í febrúar en Tryggingastofnun berast almennt reikningar frá læknum í lok hvers mánaðar.

Þeir sem hafa náð hámarksfjárhæð fyrr geta sent reikninga til Tryggingastofnunar og fengið kortið sent.

Útgáfa kortsins er liður í þeirri stefnu Tryggingastofnunar að greiða leið viðskiptavina að rétti sínum.

Notkunarmöguleikar kortsins takmarkast af þeim upplýsingum sem Tryggingastofnun hefur yfir að ráða frá heilbrigðisstarfsfólki, stofnunum og einstaklingum.

Nú stendur yfir samvinna við Landspítala háskólasjúkrahús um að fá á rafrænan hátt upplýsingar um greiðslur sjúklinga sem nýtast upp í afsláttarkort. Tæknin til að auka notagildi kortsins er fyrir hendi og því fleiri viðskiptavinir munu njóta góðs af því sem samstarfsaðilum Tryggingastofnunar um það fjölgar.

* Samkvæmt reglugerð nr. 1030/2004 um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *