Mikilvægt að breyta lífsstílnum

Morgunblaðið Helgi Bjarnason

Hjartaheill á Suðurnesjum standa fyrir umfangsmiklu forvarnarverkefni. "MARKMIÐIÐ er að vekja Suðurnesjamenn til vitundar um mikilvægi breytts lífsstíls," segir Hjálmar Árnason, alþingismaður og formaður Hjartaheilla á Suðurnesjum.

Hjartaheill standa fyrir miklu forvarnarátaki, "Heilsueflingu á Suðurnesjum", þar sem öllum Suðurnesjamönnum, 40 ára og eldri, er boðin blóðmæling. Þeir sem koma í mælingu fá jafnframt tilboð um hreyfingu og fræðslu um breyttan lífsstíl. Átakið hófst í gær með því að bæjarstjórar þriggja sveitarfélaga og fleiri aðstandendur átaksins voru mældir.

Morgunblaðið Helgi BjarnasonHjálmar segir að vísbendingar séu um að Suðurnesjamönnum sé hættara við að fá hjartaáföll en flestir aðrir landsmenn. Spurður af hverju segir Hjálmar að það sé ekki vitað en nefnir að þar sé meira um vaktavinnu en annars staðar á landinu og Suðurnesjamenn taki þátt í lífsgæðakapphlaupinu af miklu kappi þótt laun séu ekki há að jafnaði. Hjálmar segir að aðalmarkmið forvarnarátaksins sé að vinna að breyttum lífsstíl.

Farið á vinnustaði: Reynt verður að ná til sem flestra íbúa sem orðnir eru fertugir en þeir munu vera um sex þúsund. Fyrirtækið InPro vinnur verkið fyrir Hjartaheill og samstarfaðila. Hjúkrunarfræðingar á þess vegum munu heimsækja fyrirtæki til að bjóða starfsfólki blóðmælingar og þá getur fólk komið í starfsstöð fyrirtækisins í Reykjanesbæ. Fólkið fær niðurstöður blóðmælinganna og ýmsar aðrar upplýsingar um áhættuþætti og þegar þörf er talin á verður fólki vísað áfram til nánari skoðunar hjá lækni. Jafnframt verður þátttakendum afhentur svokallaður hreyfiseðill þar sem því er boðinn endurgjaldslaus tími hjá einkaþjálfara í líkamsræktarstöð og afsláttur af þjónustu. Einnig þátttaka í gönguhópum og fræðslu hjá Íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ.

"Það má segja að samfélagið allt sé samstarfsaðili okkar," segir Hjálmar um átakið sem hann hefur fyrir satt að sé viðamesta forvarnarverkefni í heilbrigðismálum sem ráðist hefur verið í hér á landi. Sveitarfélög, verkalýðsfélög, líkamsræktarstöðvar, Fjölbrautaskólinn og Íþróttaakademían standa að verkefninu með Hjartaheillum ásamt fleiri aðilum.

Gert er ráð fyrir því að vinnuveitendur, sjúkrasjóðir verkalýðsfélaganna og einstaklingarnir sjálfir skipti kostnaðinum við skoðunina á milli sín. Kom samkvæmt því um ellefu hundruð krónur í hlut hvers og eins, að sögn Hjálmars.

Í hnotskurn

» Í Heilsueflingu á Suðurnesjum er ætlunin að ná til sem flestra íbúa svæðisins, 40 ára og eldri.
» Gerðar eru mælingar á blóðþrýstingi, blóðfitu og líkamsþyngdarstuðull reiknaður út.
» Markmiðið er að bjarga mannslífum og hvetja fólk til að lifa heilsusamlegra lífi. Morgunblaðið miðvikudaginn 10. janúar 2006

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *