Breyttar reglur um afsláttarkort Tryggingastofnunar ríkisins

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur breytt reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Breytingin er ívilnandi fyrir þá sem fengið hafa þjónustu annarra fagstétta en lækna á göngudeildum sjúkrahúsa. Hún felur í sér að framvegis verða komugjöld á göngudeildunum vegna þjónustu annarra en lækna tekin til greina þegar sótt er um afsláttarkort frá Tryggingastofnun ríkisins, en það var ekki gert áður. Hin breytta reglugerð tók gildi 1. apríl síðast liðinn.

Fyrir breytinguna var gerður greinamunur á því hvort þjónustunnar var leitað á heilsugæslustöð eða á göngudeild sjúkrahúss og var kostnaður þeirra sem sóttu þjónustu til annarra en lækna á göngudeild ekki látinn telja upp í afsláttarskírteini Tryggingastofnunar ríkisins. Þessum mun hefur nú verið eytt. Til að eiga rétt á afsláttarkorti þarf viðkomandi einstaklingur að geta sýnt fram á að hann hafi greitt samtals 18 þúsund kr. það sem af er árinu fyrir heilbrigðisþjónustu. Ef um er að ræða elli- eða örorkulífeyrisþega er lágmarksupphæðin 4500 kr. og 6000 kr. ef um er að ræða börn yngri en 18 ára innan sömu fjölskyldu.

Samkvæmt nýju reglugerðinni verður almennt gjald þeirra sem hafa afsláttarkort vegna þjónustu annarra en lækna 940 kr. Ellilífeyrisþegar 70 ára og eldri, örorkulífeyrisþegar, ellilífeyrisþegar 60-70 ára sem nutu örorkulífeyris fram til 67 ára aldurs og ellilífeyrisþegar 60-70 ára sem njóta óskerts ellilífeyris munu hins vegar greiða 450 kr. Börn yngri en 18 ára sem hafa afsláttarkort munu eftirleiðis greiða 450 kr.

Fréttir af vef heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *