SIF Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra og Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor hafa ákveðið að gera samstarfssamning um Rannsóknastofnun um lyfjamál við Háskóla Íslands (RUL). Stofnuninni er ætlað að vera víðtækur vettvangur rannsókna á sviði lyfjamála. Sérstök áhersla verður lögð á rannsóknir er lúta að skynsamlegri ákvarðanatöku um lyfjanotkun, lyfjafaraldsfræði og lyfjahagfræði.
Að rannsóknastofnuninni um lyfjamál við Háskóla Íslands standa einnig Landlæknisembættið, Landspítali – háskólasjúkrahús, Lyfjastofnun og Lyfjafræðingafélag Íslands. Um 20 milljónir króna verða lagðar til stofnunarinnar á næstu þremur árum.
Markmið stofnunarinnar er að auka rannsóknir og fræðslu um lyfjanotkun og lyfjastefnu á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi.
Morgunblaðið miðvikudaginn 25. apríl 2007.