Stefnumörkun í gæðamálum til 2010

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og Landlæknisembættið gáfu í dag út Stefnumörkun heilbrigðisyfirvalda í gæðamálum til ársins 2010. Stefnumörkunin tekur við af gæðaáætlun ráðuneytisins sem kom út árið 1999 en meginmarkmið hennar var meðal annars að stuðla að formlegu gæðaþróunarstarfi heilbrigðisstofnana. Margt af því sem þá var lögð áhersla á hefur gengið eftir og leitt til jákvæðra breytinga á starfsemi og skipulagi stofnananna.

Í hinni nýju stefnumörkun er sjónum í ríkari mæli en áður beint að verkefnum sem heyra undir heilbrigðisyfirvöld og eru lagðar fram þær megináherslur sem unnið verður eftir til ársins 2010. Markmiðið er að auka gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og stuðla að bættu heilbrigði þjóðarinnar. Nýja gæðastefnan styðst meðal annars við markmið íslenskrar heilbrigðisáætlunar til ársins 2010 og viðmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um gæði í heilbrigðisþjónustu. Þá hefur verið litið til stefnu heilbrigðisyfirvalda í gæðamálum annars staðar á Norðurlöndum auk fleiri þátta.

Ein megin áhersla endurskoðaðrar gæðastefnu snýr að öryggi sjúklinga en rannsóknir hafa sýnt að þar sem öryggi sjúklinga á heilbrigðisstofnunum er ábótavant er talið að orsakirnar liggi oftast í kerfum og vinnuferlum stofnananna. Góð skráning og úrvinnsla upplýsinga er því veigamikill þáttur í auknu öryggi og umbótum. Stefnt er að því að efla skráningu atvika auk þess sem úrvinnsla upplýsinga úr atvikaskráningarkerfum verður gerð markvissari og sýnilegri. Benda má á að í lögum um heilbrigðisþjónustu og í lögum um landlæknisembættið sem samþykkt voru á nýafstöðnu þingi og taka gildi þann 1. september næst komandi er einnig kveðið á um aukna áherslu á öryggi sjúklinga og gæði þjónustunnar.

Í gæðastefnunni er einnig lögð áhersla á mikilvægi gæðamenningar sem m.a endurspeglast í auknu samstarfi við sjúklinga og aðstandendur, beitingu nýjustu þekkingar og stöðugs náms. Skilgreiningar á hlutverki og verkaskiptingu stofnana, gæðakröfur, gæðamælikvarðar, klínískar leiðbeiningar og rafræn skráning eru allt atriði sem lögð er áhersla á auk fjölmargra annarra þátta innan heilbrigðisþjónustunnar.

Um leið og gæðastefnan endurspeglar sýn heilbrigðisyfirvalda eru stofnanir hvattar til að gera eigin gæðaáætlanir, sem taka mið af hlutverki og viðfangsefnum þeirrar stofnunar sem í hlut á. Sérstakt gæðaráð verður skipað til að fylgja gæðastefnunni eftir með fulltrúum heilbrigðis-yfirvalda, stofnana, fagfólks og notenda.

Fréttir af vef Heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *