
Nú er liðið rúmt ár frá gildistöku reglugerðar nr. 241/2006 sem heilbrigðisráðherra gaf út um tilvísanaskyldu til hjartasérfræðinga. Í reglugerðinni segir m.a.: ,,Skilyrði fyrir endurgreiðslu sjúkratrygginga almannatrygginga á hluta kostnaðar sjúkratryggðra einstaklinga við þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga í hjartalækningum utan sjúkrahúsa sem starfa án samnings við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er að fyrir liggi tilvísun á sérfræðiþjónustuna frá heilsugæslulækni eða heimilislækni. Hafi sjúkratryggður einstaklingur ekki slíka tilvísun taka sjúkratryggingar almannatrygginga ekki þátt í kostnaði við þjónustuna."
Reglugerðin kom í kjölfar af því að sjálfstætt starfandi hjartalæknar sögðu sig af samningi sínum við ríkið.
Rök ráðuneytisins fyrir setningu reglugerðarinnar voru þau að hún væri forsenda fyrir því að sjúklingar nytu einhverrar endurgreiðslu úr sjúkratryggingum frá Tryggingarstofnuninni vegna þjónustu hjartasérfræðinganna . Reglugerðin var sett án nokkurs samráðs við viðkomandi sjúklingahóp og samtök þeirra. Með þessari gjörð var sjúklingum mismunað. Tilvísunarkerfi var sett á fólk með hjartasjúkdóma og veldur því að það situr nú ekki við sama borð og aðrir sjúklingar. Slík mismunun á sjúklingahópum er óásættanleg.
Rétt er að rifja aðeins upp aðdraganda þess að hjartasérfræðingar sögðu sig af samningi. Sú saga er mjög umhugsunarverð því hún var afleiðing af bættri þjónustu við hjartasjúklinga. Sérgreinalæknar og ríkið gerðu samning um ákveðinn einingafjölda í vinnu þeirra sem TR tæki þátt í að greiða. Einingafjöldi hjartasérfræðinga dugði í fyrstu meðan skortur var á hjartalæknum og löng bið eftir tíma hjá þeim, gjarnan margir mánuðir. Þegar ungir sérfræðingar bættust í hópinn jukust afköstin, bið sjúklinga styttist og þjónustan batnaði. En um leið gekk hraðar á einingarnar uns að því kom að þær voru uppurnar í nóvember 2005. Að sögn hjartalæknanna urðu þeir þá að taka á sig hlut TR til áramóta. Eftir langar viðræður sögðu hjartalæknar sig af samningnum þar sem að þeirra mati ríkinu varð ekki þokað til að fjölga einingum. Þeir treystu sér þá ekki til að vinna mánuðum saman án launa fyrir þennan þátt þjónustu sinnar. Þá setti heilbrigðisráðherrann umrædda reglugerð, að sögn til að tryggja rétt sjúklinga.
Nú er ekki úr vegi að athuga reynsluna af þessu ári. Niðurstaðan er í stuttu máli þessi:
◊ Til að fá skoðun eða meðferð hjá hjartasérfræðingum hafa sjúklingar fyrst þurft að fara til heilsugæslulæknis til að fá tilvísun, svo til hjartalæknisins og loks að koma gögnum til Tryggingarstofnunar til að fá hlut hennar endurgreiddan.
◊ Heimsóknum til sjálfstætt starfandi hjartalækna hefur fjölgað, líklega um nálægt 3 %.
◊ Útgjöld Tryggingarstofnunar vegna endurgreiðslna til hjartasjúklinga hafa minnkað verulega.
◊ Læknafélagið hefur mótmælt reglugerðinni enda hefur hún orsakað fjölda ónauðsynlegra heimsókna til heilsugæslulækna. Heimsóknir sem ekki hafa haft annan tilgang en að fá tilvísun til hjartasérfræðinga.
Ljóst er af þessum upplýsingum að margir hafa sleppt þeim tveimur ferðum sem í raun eru óþarfar, þ.e. til heilsugæslunnar og Tryggingastofnunar, og greitt hjartalæknum allt úr eigin vasa.
Við eigum erfitt með að trúa því að tilgangurinn hafi verið sá að velta kostnaðinum sem mest yfir á þá sem þurfa á þjónustu hjartasérfræðinganna að halda. Kostnaði og fullkomlega óþarfri fyrirhöfn er velt yfir á sjúklingana og reyndar líka á heilsugæslulæknana.
Varla getur það hafa verið tilgangur með gildistöku reglugerðarinnar. Tilgangur stjórnvalda var væntanlega tilraun til að finna leið til niðurgreiðslu á þjónustunni í kjölfar þess að hjartasérfræðingar gengu af samningnum. En lausn ráðuneytisins hefur hins vegar snúist upp í andhverfu sína og bitnað á þeim sem síst skyldi og málið varðar – sjúklingunum sjálfum. Þannig fer stundum þegar ekkert samráð er haft við þá sem málið snerta.
Hjartaheill og SÍBS hafa allt frá því að fréttir bárust af reglugerðinni komið á framfæri mótmælum vegna gildistöku hennar. Fundað hefur verið m.a. með heilbrigðisráðherra, heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis og fulltrúum félags sjálfstætt starfandi hjartalækna. Þá hafa samtökin átt sæti í samráðshópi ásamt fulltrúa heilbrigðisráðuneytis og lækningaforstjóra Heilsugæslunnar í Reykjavík. Þar hefur sjónarmiðum sjúklinga verið komið á framfæri og m.a. verið bent á mikið óhagræði og kostnaðarauka sjúklinga með tilkomu reglugerðarinnar. Meginkrafa samtakanna hefur verið sú að fulltrúar félags sjálfstætt starfandi hjartasérfræðinga og fulltrúar samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins setjist að samningsborði og leitist við að ná saman. Til þess að greiða fyrir því að þessir aðilar næðu saman kallaði SÍBS og Hjartaheill á fulltrúa ofangreindra aðila til fundar og hvöttu þar samningsaðila til að setjast að samningaborði enda grunnforsenda þess að lausn fáist í þessu máli að aðilar hittist og leiti málamiðlunar. Þrátt fyrir þetta höfum við ekki spurnir af því að aðilar hafi komið saman og því bitna afleiðingar reglugerðarinnar enn af fullum þunga á þeim sem síst skyldi, þ.e. á hjartasjúklingum.
Við teljum að nú sé nóg komið og tímabært að láta af augljósu ranglæti og óþarfa fyrirhöfn og kostnaði fyrir sjúklinga. Eitt er að gera mistök en miklu verra er að neita að horfast í augu við þau og lagfæra þau. Núverandi ríkisstjórn hefur sagt að á næsta kjörtímabili eigi að snúa sér að enn frekari endurbótum á velferðarkerfinu. Það þarf ekki að bíða kosninga með að hefja vinnu við samningagerð við hjartasérfræðinga svo leggja megi af þessa reglugerð. Slíkt benti til að vilji til endurbóta á kerfinu væru ekki innantóm orð sem gleymdust að loknum kosningum.
Guðmundur Bjarnason, varaformaður Hjartaheilla
Haraldur Finnsson, formaður Reykjavíkurdeildar Hjartaheilla
Helgi Hróðmarsson, framvæmdastjóri SÍBS