Örlítil sjúkrasaga

HANN vissi flestum betur að margt er manna bölið. Liðagigt, lungnasjúkdómar, hjartasjúkdómar, blóðtappar, hormónasjúkdómar og bólgusjúkdómar í meltingarvegi og æðum höfðu, þrátt fyrir óbilandi kjark og starfslöngun, bundið hann í hjólastól og gert hann háðan súrefni bróðurpartinn úr sólahringnum. Eitt sinn, þegar hann kom til mín, mat ég það svo að hann þyrfti að hitta hjartalækni sinn sem allra fyrst vegna nýtilkominnar hjartsláttaróreglu.

Að öllu eðlilegu hefði þetta átt að vera auðvelt því hjartalæknirinn var með móttöku á sama tíma og í sama húsi og ég. En nú var komið babb í bátinn. Frá því að skjólstæðingur minn hitti hjartalækni sinn síðast var komin tilvísunarskylda til hjartlækna. Samkvæmt reglugerð nr. 241/2006 eru heimilislæknar einir færir um að meta hvort sjúklingar þurfi á hjartalækni að halda. Mér, aumum sérfræðingi, var ekki treyst til að meta hvort þessi skjólstæðingur minn, sem ég hafði þekkt og meðhöndlað í nærri þrjá áratugi, væri í þörf fyrir skoðun hjá hjartalækni. Vandamálið var torleystara fyrir þá sök að hann hafði engan heimilislækni. Nú tóku við hringingar og samtöl við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis og bið eftir viðtali hjá heimilislækninum nýja, sem hafði þann eina tilgang, að sá góði maður skrifaði tilvísun til hjartalæknisins. Að skoðun og meðferð hjartalæknis lokinni lá svo leiðin niður í Tryggingastofnun til að fá endurgreitt. Eftir þessa reynslu sótti sá grunur að mér, og skjólstæðingi mínum, að reglugerð nr. 241/2006 væri ekki samin fyrir sjúklinga, heldur beinlínis í þeim tilgangi að leggja stein í götu þeirra sem virkilega þurfa á læknisaðstoð að halda og spara með því útgjöld fyrir ríkissjóð. Við ætluðum í sameiningu að skrifa litla grein um þessa reynslu okkar. Hann lést þó áður en af því gat orðið.

Höfundur er læknir og sérfræðingur í lyflækningum og ofnæmislækningum. Morgunblaðið laugardaginn 19. maí 2007

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *