
Um síðustu mánaðamót var haldinn á Akureyri formannafundur Hjartaheilla, landssamtaka hjartasjúklinga en þar mæta formenn deilda ásamt starfsmönnum og stjórn.
Vel var mætt til fundarins, en sérstakur gestur hans var Helgi Hróðmarsson framkvæmdastjóri SÍBS sem sagði frá starfi samtakanna og lýsti sérstakri ánægju með starfsemi Hjartaheilla, sem eiga aðild að SÍBS.
Í skýrslum formanns og deildanna kom fram að mikið starf er unnið á vegum Hjartaheilla við að efla aðstöðu og búnað á heilbrigðisstofnunum og við forvarnir með fræðslu og mælingum á blóðþrýstingi og blóðfitu víðs vegar um landið. Þá er stöðugt unnið að hagsmunamálum félagsmanna, nú síðast með hagstæðum samningi við Lyfju um afslátt á lyfjum að ýmsu tagi. Einnig lögð áhersla á kannanir á á lyfjaverði.
Þórir Guðbergsson, nýr ritstjóri Velferðar, málgagns Hjartaheilla, kynnti áherslur sínar í útgáfunni, en blaðið hefur jafnan verið vettvangur félagsins og félagsmanna varðandi fréttir af félagsstarfi vítt um landið og ekki síður til fræðslu og kynningar á nýjungum í hjartalækningum og forvarnarstarfi.
Vilhjálmur B. Vilhjálmsson lætur nú af störfum formanns eftir tæplega 7 ára starf. Hann hafði óskað eftir því að draga sig í hlé frá formennsku og afhenti nýjum formanni Hjartaheilla, Guðmundi Bjarnasyni fyrrum heilbrigðisráðherra, veldissprota sinn og sagðist gera það glaður í bragði. Vilhjálmi var afhent gjöf frá Hjartaheillum við þetta tækifæri ásamt því að hann var sæmdur æðsta heiðursmerki þeirra.
