Blóðfitulækkandi lyf fyrir alla?

Hjartasjúkdómar Blóðfitulækkandi lyf gætu dregið úr tíðni hjartasjúkdóma ef allir á ákveðum aldri og í ákveðnum áhættuhópum notuðu lyfin að staðaldri.

Notkun blóðfitulækkandi lyfja hefur aukist verulega á Íslandi síðan 1993 en þá voru dagskammtar fyrir hverja 1000 íbúa um 2,9 en árið 2001 voru þeir komnir í 45.

Hjartasjúkdómar Blóðfitulækkandi lyf gætu dregið úr tíðni hjartasjúkdóma ef allir á ákveðum aldri og í ákveðnum áhættuhópum notuðu lyfin að staðaldri. Margt bendir til þess að þróunin til dagsins í dag hafi verið sú sama enda eru hjarta- og æðasjúkdómar taldir valda rúmlega einum þriðja allra dauðsfalla á Íslandi. Hlutfallið er svipað í Evrópu eins og kemur fram í frétt hjá vefmiðli Times en þar koma fram hugmyndir um að gefa ákveðnum hópum blóðfitulækkandi lyf, óháð einkennum, til að draga úr hjarta- og æðasjúkdómum sem eru þjóðfélaginu mjög dýrkeyptir.

Kortlagning áhættuhópa. Sjúkdómar þessir, sem oft eru tengdir mikilli velmegun á Vesturlöndum, hafa kallað á aðgerðir í þessum málum og nú leggur forstjóri deildar hjartasjúkdóma í Bretlandi, Roger Boyle, til að öllum körlum yfir fimmtugu og öllum konum yfir sextugu verði gefin blóðfitulækkandi lyf. Aðgerðin sem líkja má við teppalagningu, þ.e. að allir á tilteknu aldursbili fái lyfin, óháð einkennum, ætti að borga sig fyrir þjóðfélagið í lækkun dauðsfalla, minni útgjöldum heilbrigðiskerfisins og tímasparnaði.

Þannig kemur fram sjúklingar frá þrjátíu árum að aldri, sem eru í áhættuhóp, gætu notið góðs af lyfjagjöf þar sem eins konar "fjölpilla" er notuð en þar er blandað saman fólín-sýru, aspiríni, blóðþrýstingslyfjum og svo blóðfitulækkandi lyfjum. Það er talið að 85% þeirra sem eru í áhættuhópnum hafi engin einkenni og eru því ómeðvitaðir um áhættuna.

Þannig segir í fréttinni að það ætti að skoða milljónir manna til að ákvarða hve margir myndu njóta góðs af því að taka blóðfitulækkandi lyf. Til viðbótar ættu karlar á aldrinum 50-55 og konur á aldrinum 60-65 einnig að fá blóðfitulækkandi lyf. En árið 2003 hafi hópur vísindamanna komist að því að hægt væri að draga úr áhættunni á því að fá hjartaáfall um 80% ef lyfið væri tekið af öllum yfir 55 árum að aldri.

Prófessor Boyle telur þó að almenningur sé ekki tilbúin til þess að allir fái lyf til að taka á hverjum degi. Einnig séu yfirvöld meðvituð um það að forsjárhyggja sé ekki af hinu góða og því sé almenningi nauðsynlegt að hafa val þegar kemur að málum sem þessum. Morgunblaðið miðvikudaginn 15. ágúst 2007

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *