Maraþonið gaf 41 milljón

Birna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Glitnis á Íslandi, afhenti fulltrúum félaganna fjármunina við athöfn í Háskólabíói.

Alls nutu um 130 líknar- og góðgerðarfélög góðs af sprikli landsmanna í dag, þegar Glitnir greiddi út áheitin í Reykjavíkurmaraþoninu 2007, alls 41,3 milljónir króna, við hátíðlega athöfn í Háskólabíói í dag.

Birna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Glitnis á Íslandi, afhenti fulltrúum félaganna fjármunina við athöfn í Háskólabíói.Hlauparar í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis gátu valið líknar- og góðgerðarfélag til að hlaupa fyrir og síðan áttu allir kost á að heita á þá upphæð að eigin vali til að hvetja hlauparana til dáða og láta jafnframt gott af sér leiða.

Fjögur félög fengu yfir tvær milljónir króna hvert: Umhyggja, Krabbameinsfélag Íslands, Barnaspítali Hringsins og Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna. Fimm til viðbótar fengu á bilinu 1,1 til 1,6 milljónir króna hvert: Einstök börn, Göngum saman, MS félagið, ABC barnahjálp og MND félagið.

Þá runnu skráningargjöld í Latabæjarhlaupinu – um 3,4 milljónir króna – óskipt til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Einar Benediktsson, stjórnarformaður UNICEF á Íslandi, veitti skráningargjöldunum, auk áheita upp á 635.000 krónur, viðtöku á samkomunni. Hann sagðist við tækifærið vera bæði snortinn og þakklátur aðstandendum Reykjavíkurmaraþonsins, en þó fyrst og fremst þátttakendum í Latabæjarhlaupinu, fyrir mikilvægan stuðning: „Kjarninn í Latabæjarhlaupinu í ár var að börn hjálpi börnum og er það gott hverri þjóð að börn læri að finna fyrir samkennd í garð þeirra sem minna mega sín. Þetta framlag yngstu hlauparanna mun breyta lífi og aðstæðum fjölda barna sem þjást og líða skort vegna fátæktar, sjúkdóma, stríðsátaka eða náttúruhamfara. Slíkur stuðningur er okkur mikilvægari en orð fá lýst." sagði Einar. Visir.is föstudaginn 24. ágúst 2007.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *