Rvík. Krókur – Sigló

Í morgunnljómann … Það var rigning og hvassviðri þegar SÍBS lestin lagði upp frá Reykjavík í morgun. Dagurinn hófst með heimsókn Lindu Blöndal frá Rás 2 og síðan var ekið norður á Sauðárkrók þar sem heilbrigðisstarfsfólk tók vel á móti okkur og mældi blóðþrýsting, blóðfitu, súefnismettun og öndun. 40-50 manns komu og fengu mat á þessum atriðum. Síðan var ekið til Siglufjarðar þar sem  gist verður í nótt.

Guðrún Jóhannsdóttir hjúkrunarstjóri tekur við blóðþrýstingsmæli frá SÍBS. SÍBS lestin brunar um landið. Dagur 1.

Á undanförnum árum hefur Hjartaheill staðið fyrir mælingum á blóðþrýstingi, blóðfitu og ýmsum heilsufarsupplýsingum í góðri samvinnu við heilsugæslufólk vítt um landið. Yfirleitt voru farnar ferðir um helgar og mælt á einum stað eða tveimur. Jafnframt þessu hefur verið að aukast samvinna á milli félagsdeilda innan SÍBS og nokkur verkefni hafa stuðlað að henni.

Hugmyndin að langri ferð eins og nú hefur verið lagt í kviknaði yfir kaffibolla hjá Ásgeiri Þór í Hjartaheill og hefur verið að gerjast í ár eða svo. Tilgangurinn er að halda áfram starfi því sem að ofan greinir, útvíkka það t.d. í þágu lungnasjúkra og styrkja samstarf fólksins í SÍBS. Veigamikið atriði er einnig sá áhugi sem við finnum hjá heilbrigðisstarfsfólki á landinu öllu, en án hans væri þetta ógerlegt. Með samstarfi við það er eftirfylgni við þá sem mæta möguleg og örugg.

Nema hvað! SÍBS lestin lagði upp frá Reykjavík að morgni 12. september 2007 á þremur merktum bílum í sunnan hvassviðri og ausandi rigningu. Fyrsti áfangastaður var Sauðárkrókur. Heldur seinkaði brottför um morguninn, m.a. vegna þess að hin ágæta útvarpskona Linda Blöndal kom og ræddi við okkur, ýmislegt var á síðasta snúningi o.s.frv. Þá flýtti það ekki förinni að á Kjalarnesi mældist vindur um 25 metrar á sekúndu í hviðum og einnig lá leið okkar í gegn um umdæmi lögreglunnar á Blönduósi!

Þegar komið var til Sauðárkróks um tíu mínútum eftir auglýstan tíma voru mættir 20-30 brosandi gestir sem tóku þessum töfum og afsökunum okkar af mikilli geðprýði og hið sama mátti segja um hjúkrunarfræðingana sem tóku þegar til óspilltra málanna af mikilli fagmennsku. Þarna eins og oft áður komu nokkrir sem voru með hærri gildi en þeir höfðu vitað af áður og fengu viðeigandi ráðstafanir og sumir rannsóknir á stundinni, því læknirinn var á staðnum. Þarna var okkur sagt að komið hefðu nokkur ný andlit, ef svo mætti segja, þ.e. fólk sem ekki hafði mætt til slíkra mælinga áður. Hátt í fimmtíu manns komu þarna.

Við kvöddum starfsfólkið upp úr klukkan fjögur með þökkum og fengum leiðbeiningar um hvar best væri að fá sér að borða, því nú var hungrið farið að sverfa. Skemmst er þó frá því að segja að þeir staðir voru harðlæstir og ekki tókst okkur að fá greiða á þessum tíma, utan pulsu með bacon á N1 sem var þó snöggtum skárra en ekkert. Pétur heimsótti umboðsmann  Happdrættis SÍBS á Sauðárkróki meðan á mælingunum stóð og svo var komið við á Hofsósi hjá umboðsmanninum þar. Næst lá svo leiðin til Siglufjarðar um Strákagöngin sem eru í góðu standi, vel lýst og þurr. Gisting verður í nótt á Hvanneyri eftir að við kláruðum að vinna Norður-Íra í fótboltanum. Nú eru þetta „strákarnir okkar". Kvöldverður var ágætur á Pizza 67, en samt fiskur.

Fyrsti dagur „SÍBS lestarinnar" að kvöldi kominn og mál að fara að segja amen eftir efninu og loka tölvunni. Það gekk seint að koma ágripi inn á netið í gegn um farsímatenginguna en hafðist þó. Veðurspáin segir að vænta megi 27 metra á sekúndu á morgun og slyddu næstu daga. Den tid, den sorg.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *