Fjarðabyggð – Djúpivogur

Sól, blíða og fagrir haustlitir á Fagradal í morgun. Mælt var samtímis á Eskifirði og í Neskaupstað og að því búnu á Reyðarfirði. Mæting var ljómandi góð á þessum stöðum og  um 130 manns mættu. HL stöðin í Neskaupstað er í fullum gangi og það náðist að mynda þjálfunaraðstöðuna og HL-hópinn sem var að  leggja af stað í gönguferð sér til hressingar og heilsubótar.

Fagridalur bar nafn sitt vel í morgun þar sem gróðurinn skartaði fegurstu haustlitum í sól og logni. Við yfirgefum Egilsstaði þar sem okkur er sagt að alltaf sé gott veður. Við erum alveg tilbúin að trúa því  og sömuleiðis að Hótel Hérað bjóði bæði glæsilega gistingu og góða þjónustu – og standi við það.

Á Eskifirði var liðinu skipt, helmingur fór yfir í Neskaupstað og hinn varð eftir á heilsugæslustöðinni á Eskifirði. Í Oddskarðsgöngum myndaðist stífla þar sem fleiri bílar voru á ferð en tókst að rúma á hliðarrein. Við bökkuðum til baka með nokkrum tilþrifum og gekk framar vonum og tókst síðan að komast í gegn.

HL hópurinn ásamt Birni  lækni og guðföður HL starfsinsBjörn Magnússon og hans vaska lið tók á móti okkur á heilsugæslunni og þar hófust mælingar ásamt fræðslu um SÍBS og aðildarfélögin að venju og gekk vel. Þarna hefur verið haldið úti öflugu endurhæfingarstarfi, ekki síst fyrir lungnasjúklinga og þarna starfar ein af þremur viðurkenndum HL stöðvum á landinu. Æfingasalurinn er ágætlega búinn og það náðist að smella af mynd af  hópi sem var að leggja af stað í göngu, sem er liður í þessu starfi. Göngufélagar sögðu okkur að þarna væru hjarta- og lungnasjúklungar í bland eins og gerist á öðrum HL stöðvum.

Þegar mælingum lauk á þessum stöðum var farið á Reyðarfjörð það sem  mælt var fram á sjöunda tímann. Síðan lá leiðin til Djúpavogs þar sem verður gist í nótt eftir síðbúinn kvöldverð.

Það berast fréttir af einni haustlægðinni ennþá og hún er farin að gera vart við sig með vaxandi rigningu eftir því  sem sunnar dregur. SÍBS lestin er tilbúin að takast á við það en það líður líka að ferðalokum sem verða á föstudag ef  allt gengur að óskum og það verður gott að komast heim eftir stranga en skemmtilega ferð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *