Höfn – Klaustur – Heima

SÍBS lestin lauk ferð sinni um austanvert landið og renndi að SÍBS húsinu klukkan hálfsex að staðartíma. Ekið var frá Höfn í Klaustur í dýrlegu veðri og skyggni í morgun. Tæplega 40 manns komu á Klaustri og síðan var ekið heim í striklotu. Nánari úttekt á ferðinni ásamt ferðasögu er að vænta í næstu viku.

Heilsugæslan Kirkjubæjarklaustri

Klukkan níu var lestin ræst til brottfarar og ekið í sól og logni allt að Kirkjubæjarklaustri með stuttum stans við Jökulsárlón. Það hefði verið freistandi að stoppa víðar og taka myndir af lognkyrrum tjörnum þar sem allt stóð á haus, fjöll og jöklar og meira að segja hestar sáust mjög skýrt á hvolfi.

Veðurblíðan var ekki minni á Klaustri og fólk kom til okkar á heilsugæslustöðina en sagði marga fjarverandi vegna smalamennsku og helgarferða. Við fengum góðar móttökur og kvöddum svo þennan síðasta áfangastað í tíu daga ferð SÍBS lestarinnar sem nú hefur ekið á þriðja þúsund kílómetra, hitt og notið hjálpar mikils fjölda heilbrigðisstarfsmanna og umboðsmanna, og ekki síður fengið að taka þátt í að mæla  heilsufars milli 12 og 13 hundruð einstaklinga sem hafa komið og hitt okkur í þessari ferð.

Ferðalangarnir við JökulsárlónVið munum á næstunni  fara yfir það sem gert var í ferðinni, reyna að meta það og bera saman við væntingar okkar í upphafi, en nú við ferðalok er okkur efst í huga þakklæti fyrir stuðninginn og góðar óskir til velunnara okkar vítt um landið.

SÍBS og aðildarfélög þess vilja kynna landsmönnum með þessu móti og ýmsu öðru það starf sem unnið er á vettvangi þeirra og helgast umfram annað af kjörorðinu: „Styðjum sjúka til sjálfsbjargar"

Dagbókinni verður nú lokað og skrásetjari, Pétur Bjarnason kveður að sinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *