Húsvíkingar fjölmenntu til SÍBS og heilsugæslunnar

SÍBS lestin þokast austur Norðurland og er nú komin til Raufarhafnar að kvöldi sunnudags. Mælingar voru á Húsavík frá kl. 11 til kl. 17:00 í góðri samvinnu og með ötulli aðstoð heilsugæslufólks þar. Yfir 150 manns mættu og létu mæla sig og margir þeirra fóru einnig í öndunarpróf. Ýmsir munu svo fara í frekara eftirlit hjá heilsugæslunni á næstu dögum.

Húsvíkingar létu ekki biðina á sig fáEnn er Vetur konungur svolítið að minna á sig. Við ókum frá Akureyri í morgun og skiluðum Guðrúnu út á flugvöll, en hún flýgur suður með morgunvél. Leiðir okkar hinna skildu síðan, Ásgeir Þór með systurnar fóru til móts við Helga og heilsugæsluna á Húsavík en Kristín og Pétur hófu heimsóknir til umboðsmanna á svæðinu.

Fyrst var farið í Grenivík þar sem okkur var vel tekið, en umboðsmaðurinn Brynhildur kom ekki til okkar í gær vegna afmælis síns sem var auðvitað fagnað heima og við nutum góðs af veitingunum. Við fórum síðan Víkurskarð frekar en styttri leiðina frá Grenivík og í Ljósavatnsskarði og nokkru víðar var krap á vegi og gekk á með dimmum éljum.

Í Hafralækjarskóla tók Guðrún umboðsmaður á móti okkur með  sjábirtingi norðan af  Melrakkasléttu og aðalbláberjum í eftirrétt. Ekki lánaðist núna að hitta á umboðsmenn okkar á Laugum og í Reykjahlíð en verður athugað síðar. Sama var uppi á teningnum þegar rennt var í gegn um Kópasker í ljósaskiptunum, Skúli umboðsmaður var við vinnu frammi í sveit.

Nú er ég kominn fram úr SÍBS lestinni, því við Kristín fórum næst á heilsugæsluna á Húsavík þar sem var handagangur í öskjunni og mörg gengi við mælingar. Þetta hafði spurst út víða í nágrenninu og  mældir voru yfir 150 þarna á Húsavík, sem er mjög góð mæting.

Reynir umboðsmaður okkar var þeirra á meðal og hann fór með okkur Kristínu Þóru í kynnisferð um Húsavík og næsta nágrenni sem var mjög fróðleg. M.a. sáum við fyrirhugaðan stað fyrir álver á Bakkahöfða.

Að mælingu lokinni kvöddum við heilbrigðisstarfsfólk með þökkum og svo var okkur boðið í kaffi til Jóns Atla og fjölskyldu í gamla bænum á Laxamýri, en Helgi gistir þessar tvær nætur hjá tengdafólki sínu þar á Laxamýri. Þarna var gaman að koma og heimasætan lék m.a. fyrir okkur á harmoniku.

Að svo búnu var ekið rakleitt sem leið liggur til Raufarhafnar í gegn um Kópasker sem fyrr greinir og þar erum við nú komin á Hótel Norðurljós í glæsileg húskynni sem þar eru og bíðum þess að fara í mat sem verður tilreiddur fyrir okkur.

Hitinn er tvö stig og vindátt norðlæg, en skynsamir veðurfræðingar í sjónvarpinu spá því að Austfirðir verði sólarmegin á næstu dögum, a.m.k. miðað við aðra landshluta.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *