Vel mætt á Raufarhöfn og Þórshöfn

Mjög vel var mætt í mælingarnar í dag og stóð því vinna á Þórshöfn fram yfir kl. 7. Um eða yfir 100 manns voru mældir á þessum tveimur stöðum. Jafnframt mælingum fer fram kynning á starfi SÍBS og aðildafélaganna ásamt því að hitta umboðsmenn Happdrættis SÍBS.

Ásgeir Þór ræðir við ÞórshafnarbúaBjartviðri og  morgunsól en áfram svalt. Við kveðjum Hótel Norðurljós þar sem aðstaða og allur viðurgjörningur toppar það sem við höfum séð í ferðinni fram að þessu. Mælingar á Raufarhöfn fóru fram í gamla Póst- og símahúsinu sem er heilsugæslustöð til bráðabirgða, meðan endurbætur fara fram á húsnæði heilsugæslunnar.

Hugurinn hvarflar hér til síldaráranna þegar maður fór upp á símstöð (að vísu hinum megin götunnar þá) og ætlaði að hringja heim. Þegar biðröðin þar blasti við var talið í buddunni og beðið um hraðsímtal. Það dugði þó ekki því allir sem biðu voru þá með forgangshrað. Þannig gekk lítið á röðina en allir greiddu tífalt fyrir símtalið. Það voru símaklefarnir á stöðinni sem rifjuðu þetta upp. Nú kemur enginn lengur inn í símtöl og segir: „Viðtalsbil"

Heilsugæslu(sím)stöðin á RaufarhöfnÞetta var útúrdúr en mæting var mjög góð á Raufarhöfn og náðist tæplega að ljúka mælingum innan tímamarka og því komum við á heilsugæslustöðina á Þórshöfn í seinna lagi eða á slaginu 4. Þar var mjög vel mætt og stóð mæling því fram yfir klukkan sjö. Alls voru mældir um eða yfir hundrað manns í dag. Kristín og Pétur hittu umboðsmenn á Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafirði í dag og munu hitta marga á morgun ef að líkum lætur.

Við Kristín erum komin á Hótel Tanga á Vopnafirði nú á áttunda tímanum og bíðum þess að mælingafólkið skili sér en þar er farið að gæta þreytu eftir stífa dagskrá að undanförnu og langan dag í dag.

Á morgun verður mælt hér á Vopnafirðí og síðan ekið til Egilsstaða þar sem áætlað er að ljúka mælingum klukkan sjö annað kvöld. Það gæti þó dregist lengur verði aðsókn jafn mikil og í dag.

Það er lærdómsríkt að ferðast hér um Norðausturhornið og kynnast aðstæðum bæði í atvinnumálum og ekki síður vegamálum. Óneitanlega minnir margt í þeim efnum á Vestfirði þar sem skrifari þekkir vel til, a.m.k. eru hér mikil og verðug verkefni í til að leysa í þessum efnum líkt og þar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *