Mæling á Vopnafirði kl. 10 – 13 og síðan á Egilsstöðum kl. 16 – 19. Vel var mætt á báðum stöðum og heilsugæslufólk vann okkur vel sem jafnan fyrr. Mældir voru yfir 130 samtals sem skiptist nokkuð jafnt. Haft var samband við umboðsmenn á Jökuldal, Fljótsdal, á Egilsstöðum og Borgarfirði.
Vopnfirðingar fjölmenntu til okkar á heilsugæslustöðina í morgun til mælinga á blóðþrýstingi, blóðfitu og súrefnismettun. Aðstæður þar voru prýðilegar og mælingum lauk á tilsettum tíma. Við kvöddum heilsugæslufólkið síðan með þökkum upp úr hádegi og fengum holla og bragðgóða súpu á hótelinu áður en lagt var á heiðina.
Við völdum lengri leiðina, m.a. vegna þess að við Kristín Þóra komum við hjá umboðsmanni okkar á Jökuldal sem býr á bænum Merki (sjá mynd). Rétt er að taka fram að við komumst heim að bænum akandi og notuðum ekki þessa ágætu kláfferju. Þarna var okkur vel tekið og við hittum svo umboðsmenn af Borgarfirði og Egilsstöðum en þeir mættu síðan í mælingar á heilsugæslunni. Þá var haft samband við umboðsmann okkar í Fljótsdal, sem er upptekin við vinnu í kvöld og fyrramálið. Þangað höfum við komið fyrr og fengið góðar móttökur.
Á Egilsstöðum var sama sagan og fyrr, það var mjög vel mætt og okkur afar vel tekið. Aðstaða til fyrirmyndar og allt gekk vel. Að mælingum loknum fengu bílarnir í lestinni vel þegið þrifabað á þvottaplani í nágrenninu og senn líður að því að við setjumst að snæðingi hér á Hótel Hérað, (sem fær að fara á síðuna með óbeygt nafnikð að þessu sinni) en það virðist nýtískulegt, vel búið og afar notalegt.
Veður var hlýrra en undanfarna daga og á fjöllunum skein sólin og útsýni var gott til fjallanna umhverfis. Hvíta kórónan á kolli þeirra lætur undan síga með degi hverjum.