Þann 30. september verður haldinn Alþjóðlegur hjartadagur í yfir 100 löndum um allan heim. Haldið verður uppá daginn með veglegum hætti á Íslandi í ár af Hjartavernd í samstarfi við Hjartaheill og Neistann, styrktarfélag hjartveikra barna. Í tilefni dagsins verður fyrirlestraröð í Salnum Kópavogi þann 27. september sem hefst klukkan 18:00. Sjálfur Hjartadagurinn er haldinn á Hálsatorgi í Kópavogi, beint á móti Salnum þann 30. september.
Á hverju ári hefur Alþjóðlegi hjartadagurinn ákveðið þema og í ár er það fjölskyldan og samfélagið sem er ekki að ástæðulausu því það eru yfir 155 milljónir barna of þung eða of feit í heiminum. Með þema dagsins er líka lögð áhersla á að það er sameiginlegt verkefni hornsteina samfélagsins svo sem fjölskyldunnar, skólanna, vinnustaða og félagasamtaka að vinna saman að að því að ala upp heilbrigða einstaklinga sem eiga ekki á hættu að þróa með sér hjartasjúkdóm á fullorðinsárum, sjúkdóm sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir með heilbrigðum lífsháttum strax í bernsku.
Ráðstefna í Salnum Kópavogi þann 27. september
Ráðstefna verður haldin fyrir allan almenning í Salnum fimmtudaginn 27. september þar sem ýmsir sérfræðingar halda erindi um helstu áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma. Ráðstefnan hefst klukkan 18:00 og þátttaka er ókeypis. Nánar má lesa dagskrána með því að fara inná http://www.hjarta.is/
Alþjóðlegi hjartadagurinn þann 30. september – Hálsatorgi Kópavogi
Hjartadagshlaupið ( 3, 5 og 10 km). Ræst verður í 3 km hlaupið frá Hálsatorgi klukkan 10:50 en klukkan 11:00 í 5 og 10 km. Í 5 og 10 km er ræst frá Bókasafni Kópavogs á Hálsatorgi. Nánari upplýsingar og skráning í hlaupið er á www.hlaup.is og www.hjarta.is
Hjartagangan hefst klukkan 11:10. Gengið verður um Kópavog undir leiðsögn Björns Þorsteinssonar
11:30 Hjartahreysti-þrautabraut fyrir unglinga á Hálsatorgi – Hoppukastalar fyrir yngstu börnin á Hálsatorgi
Skemmtidagskrá á Hálsatorgi hefst klukkan 13:00
Sveppi kynnir
Hara systur syngja
Kristjana Skúladóttir syngur fyrir börnin lög af plötunni Obbosí
Verðlaunaafhending fyrir Hjartadagshlaupið
Leikarar úr söngleiknum Gretti koma fram
Stöndum saman og tökum þátt í Alþjóðlega hjartadeginum