Hjartavernd fær rúmlega 24 milljónir dollara til áframhaldandi rannsókna

Hjartavernd

Hjartavernd fær rúmlega 24 milljónir dollara til áframhaldandi rannsókna á öldrun eða rúman 1.5 milljarð ísl. króna. Fjárstyrkur þessi kemur frá Öldrunarstofnun bandaríska heilbrigðisráðuneytisins (National Institute of Aging).

HjartaverndÖldrunarrannsókn Hjartaverndar hófst árið 2002. Rannsóknin er sú umfangsmesta og ítarlegasta sem framkvæmd hefur á öldrun í heiminum í dag en í henni er m. a. beitt fullkomnustu myndgreiningartækni sem völ er á. Nærri 6000 manns hafa tekið þátt í rannsókninni og er ætlunin er að bjóða þeim áframhaldandi rannsóknir. Með þessari rannsókn verður reynt að skilja frekar þá þætti sem ákvarða heilbrigði öldrunar og í framhaldinu verður vonandi unnt að beita niðurstöðunum til að grundvalla fyrirbyggjandi aðgerðir til að sem flestir eigi þægilegt ævikvöld. Með hratt vaxandi fjölda aldraðra bæði á Íslandi sem annars staðar í heiminum verður þörfin á auknum lífsgæðum í ellinni brýnni en nokkru sinni fyrr. Rannsóknin og niðurstöður frá henni hafa verið kynntar á fjölmörgum vísindaráðstefnum og í vísindagreinum sem vakið hafa verðskuldaða athygli um heim allan.

Öldrunarrannsóknin hefur að lang stærstum hluta verið styrkt af Öldrunarstofnun bandaríska  heilbrigðisráðuneytisins (National Institute of Aging) en einnig hefur Alþingi Íslendinga styrkt Hjartavernd á fjárlögum.

Öldrunarstofnun bandaríska heilbrigðisráðuneytisins styrkir rannsóknina nú með rúmlega 24 milljón dollara framlagi til ársins 2012. Heildarkostnaður verkefnisins verður þá rúmlega 76 milljón dollarar (tæpir 5 milljarðar ísl. króna) og þar af nema framlög Öldrunarstofnunar bandaríska heilbrigðisráðuneytisinas rúmlega 75% af heildarkostnaðinum.

Framlag Öldrunarstofnunar bandaríska heilbrigðisráðuneytisina (National Institute of Aging) er að þessu sinni 24.313.651 bandaríkjadalir og er þá heildarframlag þeirra orðið 58.092.668 bandaríkjadalir. Með framlagi annarra þá er heildarfjármögnun 76.760.126 bandaríkjadalir.

Allar frekari upplýsingar veitir dr. Vilmundur Guðnason forstöðulæknir Rannsóknastöðvar Hjartaverndar Sími 535 1806, netfang v.gudnason@hjarta.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *