Íslenskur lyfjamarkaður virkar ekki sem skyldi

"JÁ, ég tel möguleika á því að opna íslenska lyfjamarkaðinn og ég vinn að því," sagði Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra í upphafi málþings á vegum Rannsóknarstofnunar um lyfjamál í gær.

Umbúðalaust Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri Hjartaheilla, sýndi nokkur dæmi um óþarflega stórar lyfjaumbúðirYfirskrift málþingsins var "Eru möguleikar að opna íslenska lyfjamarkaðinn?" Hugmyndir sem ráðherrann hefur um lækkun lyfjaverðs miða meðal annars að auknu gegnsæi í verðlagningu lyfja, hugsanlegri lögleiðingu póstverslunar með lyf hjá apótekum sem starfa eftir ströngu opinberu eftirliti (ekki netverslun með lyf) og samnorrænn lyfjamarkaður. Að auki vill hann veita undanþágur frá kröfum um íslenska fylgiseðla með lyfjum, sem hægt sé að prenta út í apótekum við afgreiðslu lyfjanna. "Það er ljóst að íslenskur lyfjamarkaður virkar ekki sem skyldi. Lyfjaverð er hærra á Íslandi en gerist og gengur á hinum Norðurlöndunum og langt yfir meðalverði lyfja í ríkjum Evrópubandalagsins," sagði Guðlaugur í ræðu sinni.

Matthías Halldórsson landlæknir kvaðst mundu styðja frumkvæði ráðherra til að efla norrænt samstarf í lyfjamálum, enda fengist með því meiri slagkraftur í viðræðum við lyfjafyrirtæki. Lyfjakostnaður hérlendis var 40% hærri en í Danmörku og Noregi árið 2005. Matthías kvað helsta vandann hér að samheitalyf komi treglega inn á markað og þá einungis 3-5% ódýrari en frumlyfin.

Auðvelt að aftengja markaðslögmálin.

Í ræðu sinni lýsti Matthías möguleikum ráðandi lyfjaframleiðenda á því að aftengja markaðslögmálin. Með afsláttum til lyfsala gegn magninnkaupum á lyfjum gæti framleiðandi fengið lyfsala til liðs við sig. Þrátt fyrir að lyfsölum sé skylt að láta neytendur vita af ódýrari samheitalyfjum en lyfseðill vísar á sé auðvelt að veita afslætti til að brúa verðmuninn og halda ódýrari lyfjunum frá neytendum þar til framleiðandi þeirra gefur sig og hverfur af markaði.

Í hnotskurn

Skylt er að láta neytendur vita af samheitalyfjum sem eru 5% ódýrari en það sem læknir vísar á. Með afslætti má brúa bilið og halda hinum ódýru samheitalyfjum frá neytendum þar til þau fara af markaði. Morgunblaðið fimmtudaginn 11. október 2007

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *