EF þú sefur í fimm tíma eða skemur á nóttunni til lengri tíma er dauðdagi um aldur fram 1,7 sinnum líklegri en hjá þeim sem sefur í sjö tíma. Vefmiðill Berlingske Tidende segir frá nýrri umsvifamikilli enskri rannsókn sem athugaði svefnvenjur og heilsu 10.308 manns á 20 ára tímabili.
Ónægur svefn er lífshættulegur því tvöfalt meiri hætta er á dauða vegna hjartasjúkdóma.
"Sjö tíma svefn er ákjósanlegur en síðasta áratuginn hefur það orðið sífellt algengara að fólk sofi í færri tíma og margir þjást af svefnvandamálum. Rannsóknin sýnir að slíkt hefur margvíslegar heilsufarslegar afleiðingar," segir Francesco Cappuccio, prófessor í Warwick-háskóla.
Jon Ovesen, danskur sérfræðingur í svefnrannsóknum, segir að fimmti hver fullorðinn Dani glími við svefnvandamál og telur það allt of mikið. "Fólk ætti að virða betur mikilvægi svefnsins. Við erum beinlínis nauðbeygð til að ætla okkur tíma í góðan nætursvefn – og það á hverri nóttu!" segir hann. Morgunblaðið 16. október 2007