Súrefniskútur fylgihlutur

Guðbjörg segir best að byrja aldrei að reykja. Ljósmynd Pjetur

Þeir sem berjast við nikótínfíknina í formi reykinga bera gjarnan fyrir sig ýmsum ástæðum fyrir því að hætta ekki.

Guðbjörg segir best að byrja aldrei að reykja. Ljósmynd PjeturHér eru taldar upp fimm mýtur sem reykingafólk notar til að réttlæta það að hætta ekki að reykja. Guðbjörg Pétursdóttir, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á lungnasviði á Reykjalundi, svarar þessum mýtum og hrekur hverja fyrir sig.

1. Mýta: Það er kúl að reykja.

"Þessu svara ég þannig að það er kúl að reykja ef fólk vill borga fyrir það með lungnasjúkdómum og eða langvinnri lungnateppu með aldrinum. Það er líka kúl að reykja ef fólk langar til að hafa fylginaut sem heitir súrefniskútur þegar það eldist."

2. Mýta: Ef ég hætti að reykja þyngist ég of mikið.

"Þá segi ég að ef maður hættir að reykja þá nýtir maður fæðuna betur. Í raun fitna allir sem eru án hreyfingar. Maður þarf alltaf að hreyfa sig til að halda sér í formi. Svarið við þyngdaraukningu við að hætta að reykja er að hreyfa sig reglulega og borða hollan mat."

3. Mýta: Ég er ungur og hætti bara seinna.

"Strax og maður byrjar að reykja þá byrjar maður að eyðileggja bifhárin, hreinsunartæki lungnanna. Þegar maður byrjar að reykja þá fer maður að draga ofan í sig um 4.000 efnasambönd og fleiri en fjörutíu þeirra geta valdið krabbameini. Þannig að frá fyrstu sígarettu byrjar þú að skemma líkama þinn."

4. Mýta: Ég reyki "light"-sígarettur og það getur varla verið svo slæmt.

"Light-sígarettur þýðir bara örlítið minna nikótín en öll sömu eiturefnin dregurðu ofan í þig. Það er sama skemmdin sem á sér stað."

5. Mýta: Fleiri konur deyja úr brjóstakrabbameini en lungnakrabbameini svo hlutfallið er ekkert svo hátt á lungnakrabba í konum.

"Það er ekkert hægt að fullyrða um hvort sé tíðara, brjóstakrabbamein eða lungnakrabbamein. Öll líffæri líkamans verða fyrir skaðlegum áhrifum reykinga. Konur eru með smærri lungu og grennri berkjur og því eru þær í frekari áhættuhópi og útsettari fyrir skaðlegum áhrifum reykinga og þola þær verr en karlar."

Að lokum bendir Guðbjörg á að sígarettureykingar eru algengasta orsök langvinnrar lungnateppu. "Um það bil 80-90 prósent lungnatepputilfella má rekja til reykinga," segir Guðbjörg og bætir því við að fyrir utan beinar sígarettureykingar þá eru meðal annarra áhættuþátta að vera innan um fólk sem reykir, það er að segja óbeinar reykingar. "Eins ef greinst hefur lungnateppa hjá öðrum í fjölskyldunni, þá er fólk í enn meiri hættu ef það reykir eða er innan um reykingar.

Ef þú ert reykingamaður og ert mæðin þá gætu lungun verið að segja þér eitthvað, eins og til dæmis að biðja þig um að hætta að reykja," segir Guðbjörg og hvetur fólk þar með til að drepa í sígarettunni fyrir fullt og allt. Fréttablaðið þriðjudaginn 13. nóvember 2007.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *