Endurhæfing minnkar þunglyndi og kvíða hjartasjúkra

Karl Kristjánsson

HJARTAENDURHÆFING á Reykjalundi hefur mjög jákvæð áhrif á andlega heilsu sjúklinga, ekki síður en líkamlega. Rannsókn Karls Kristjánssonar og Magnúsar R. Jónassonar heimilis- og endurhæfingarlækna og Þórunnar Guðmundsdóttur hjúkrunarfræðings, sem birt er í desemberhefti Læknablaðsins, leiðir þetta í ljós. Rannsóknin tók eitt ár í framkvæmd. Andlegt ástand 200 hjartasjúklinga var metið með stöðluðum spurningalista, bæði við komu og brottför frá Reykjalundi. Í ljós kom að einkenni kvíða og þunglyndis virtust minnka um allt að 72-77%.

Ekki var marktækur munur á sjúklingum eftir kyni, en öfugt samband reyndist á milli aldurs og kvíða, hinir yngri kvíðnari.

Karl Kristjánsson „Ein af okkar meginniðurstöðum er að sá bati sem verður á andlegri heilsu sjúklinga er að minnstu leyti lyfjagjöf að þakka. Það eru miklu frekar þjálfunin, fræðslan og stuðningurinn sem því valda," segir Karl Kristjánsson, en einungis í tilvikum þegar sjúklingar sýndu alvarleg einkenni þunglyndis og kvíða var ákveðið að breyta lyfjagjöf þeirra. Yfirleitt var henni haldið óbreyttri.

 

Andleg líðan tengist batahorfum

Að sögn Karls hafa fyrri rannsóknir sýnt að þeir sem eru þunglyndir og kvíðnir eiga frekar á hættu að fá hjartasjúkdóma en aðrir. Enn fremur er þeim sem fá hjartasjúkdóma og þjást af þunglyndi eða kvíða hættara við að veikjast aftur af hjartasjúkdómum eftir meðferð við þeim.

„Rannsóknir sýna líka að ef fólk fer ekki í endurhæfingu og fær ekki hjálp með sinn kvíða og sitt þunglyndi, þá geta þau einkenni orðið þrálát. Það er ekki sjálfgefið að hin andlegu einkenni fari af sjálfu sér eftir að hin líkamlegu einkenni eru farin," segir Karl.

 

Í hnotskurn

» Hjartaendurhæfing eykur þekkingu fólks á eigin ástandi og sjálfstraust þess til að stunda hreyfingu.
» Fæstir þátttakenda áttu sögu um þunglyndi eða kvíða. Þau einkenni tengdust frekar hjartveikindum þeirra.

Morgunblaðið miðvikudaginn 2. janúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *