Stofna HL-stöð í þjónustumiðstöðinni

Heilsulind HL-stöðin verður í nýrri þjónustumiðstöð

Stofnuð verður Hjarta- og lungnastöð í þjónustumiðstöð aldraðra á Nesvöllum í Reykjanesbæ. Samningur á milli Sjúkraþjálfunarinnar Átaks, Hjartaheilla og Heilsuverndarmiðstöðvarinnar var undirritaður á aðalfundi Hjartaheilla á Suðurnesjum sl. laugardag.

 

Heilsulind HL-stöðin verður í nýrri þjónustumiðstöðHL-stöðin gefur sjúklingum sem gengist hafa undir aðgerð vegna hjartasjúkdóms eða þurfa af annarri ástæðu endurhæfingu vegna hjarta eða lungnasjúkdóms kost á að stunda hana í heilsulindinni á Nesvöllum.

 

Samvinna við Hjartaheill

Sjúkraþjálfunin Átak mun flytja starfsemi sína í þjónustumiðstöðina á Nesvöllum í mars næstkomandi. Stöðin hefur sérhæft sig í almennri sjúkraþjálfun, ýmiss konar hópþjálfun og almennri heilsurækt. Stöðin hefur frá upphafi verið með svokallaða HL-hópa en það eru smáir hópar fólks sem koma í endurhæfingu í kjölfar hjartaaðgerða, áfalla eða annarra sjúkdóma í hjarta, lungum eða æðakerfi.

 

Fram kemur í fréttatilkynningu að við flutninginn er ætlunin að setja upp fullbúna HL-stöð sem rekin verður undir eftirliti hjartasérfræðings og í samvinnu við Hjartaheill. Ennfremur er fyrirhugað að opna almenna líkamsræktarstöð með áherslu á heilbrigðan lífsstíl og forvarnir gegn hjarta- og æðasjúkdómum.

 

Hjartaheill á Suðurnesjum hefur í samvinnu við Heilsuverndarstöðina unnið að forvörnum með því að bjóða íbúum upp á áhættumælingar og hafa vel á annað þúsund manns þegið slíkt mat. Heilsuverndarstöðin er einkarekið fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu og hefur það keypt hlut í Átaki.

 

Hjartaheill munu verða bakhjarl HL-stöðvarinnar með því að aðstoða við útvegum ýmissa tækja sem verkefnið þarf á að halda.

Morgunblaðið þriðjudaginn 8. janúar 2007

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *