Sigursteinn Másson hættur sem formaður ÖBÍ

Sigursteinn Másson

Sigursteinn Másson er hættur sem formaður Örykjabandalags Íslands vegna ágreinings um skipan í stjórn Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins. Frá þessu var greint á blaðamannafundi í dag. Auk þess hefur framkvæmdastjóri bandalagsins, Hafdís Gísladóttir, sagt upp störfum vegna málsins.

 

Sigursteinn MássonFundur var hjá aðalstjórn Örykjabandalagsins í gær þar sem afgreiða átti nýja stjórn í hússjóð bandalagsins, Brynju. Meirihluti framkvæmdastjórnar bandalagsins hafði lagt fram tillögu að skipan stjórnarinnar og átti Sigursteinn Másson að vera í forsvari fyrir hana. Sú tillaga var felld með eins atkvæðis mun. Emil Thoroddsen, varaformaður ÖBÍ, mælti fyrir tillögu minnihluta framkvæmdastjórnar og stakk upp á sjálfum sér í hina nýju stjórn. Var sú tillaga samþykkt.

 

Þetta varð til þess að Sigursteinn sagði af sér þar sem hann telur að ljóst sé að ekki sé lengur trúnaður á milli hans og nýrrar stjórnar í hússjóði Öryrkjabandalagsins.

 

Í tilkynningu sem dreift var á fundinum kemur fram að frá því að Sigursteinn hafi tekið við embætti formanns ÖBÍ í október 2005 hafi komið reglulega inn á hans borð málefni leigjenda hjá hússjóðnum. Margvíslegar athugasemdir hafi verið gerðar við aðbúnað, aðstæður og þjónustu við leigjendur. Taldi Sigursteinn að brýnt væri að bæta verulega þjónustu og húsnæðiskost hússjóðsins og því ljósi hafi verið lögð fram tillaga af hálfu meirihluta framkvæmdastjórnar bandalagsins um nýja stjórn.

 

Bendir Sigursteinn enn fremur á að hússjóðurinn sé sjálfsstjórnarstofnun og lýtur sjálfsstæðri stjórn en Öryrkjabandalagið og formaður þess geti ekki skotið sér undan siðferðislegri ábyrgð á starfsháttum sjóðsins. Þá veiti ÖBÍ fjármagn til starfseminnar. „Við þær aðstæður sem uppi eru treystir undirritaður sér ekki til að axla þessa ábyrgð áfram," segir enn fremur í tilkynningunni.

 

Við formennsku í Öryrkjabandalaginu tekur Emil Thoroddsen varaformaður en hann er fulltrúi Gigtarfélags Íslands í stjórn ÖBÍ. Visir.is föstudaginn 11. janúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *