Leiðir til lækkunar á lyfjakostnaði og lyfjaverði

LEIÐIR til lækkunar á lyfjaverði og lyfjakostnaði verða ræddar á morgunverðarfundi á vegum lyfsöluhóps SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu – fimmtudaginn 17. janúar á Hilton Reykjavík Nordica frá kl. 8 til 10.

Fyrirlesarar verða Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra, Pétur H. Blöndal, alþingismaður og formaður nefndar á vegum heilbrigðisráðherra, og Þorvaldur Árnason, fulltrúi lyfjasmásala í lyfjagreiðslunefnd.

 

„Lyfjaverð er aðeins einn af mörgum þáttum sem hafa áhrif á lyfjakostnað almennings og ríkisins. Aðrir þættir eru m.a. hvernig og hvaða lyf eru notuð, hvernig niðurgreiðslum Tryggingastofnunar er háttað og hvernig staðið er að rekstri heilbrigðisstofnana.

 

Nokkur umræða hefur átt sér stað að undanförnu um hvort og hvernig samkeppni á lyfjamarkaði hefur áhrif á lyfjakostnað og hafa stjórnvöld boðað breytingar á lyfjaumhverfinu. Heilbrigðisráðherra hefur skipað nefnd til að endurskoða kostnaðarþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu og eins hefur hann sett af stað vinnu við að skoða möguleika þess að Norðurlöndin verði einn markaður fyrir lyf og heilbrigðisþjónustu," segir í fréttatilkynningu.

 

Á fundinum verður farið yfir hver staðan er í smásölu lyfja og leitað svara við því hvaða aðferðum er hægt að beita til að lækka lyfjakostnað og lyfjaverð á Íslandi.

 

Aðgangseyrir er 2.500 kr. Þátttöku skal tilkynna á netfangið svth@svth.is. Nánari upplýsingar um fundinn má nálgast á vefsíðu SVÞ: www.svth.is Morgunblaðið fimmtudaginn 16. janúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *