Neyðarbíllinn án læknis

LÆKNAR sem sinnt hafa neyðarbílnum eru settir í algjörlega óviðunandi læknisfræðilega stöðu með þeirri ákvörðun að hætta að láta lækni fylgja neyðarbílnum, að því er segir í yfirlýsingu frá læknum neyðarbílsins og deildarlæknum á slysa- og bráðasviði Landspítalans.

 

Á morgun eiga læknar að hætta að manna neyðarbíl Landspítalans (LSH) og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS). Þess í stað verða háskólamenntaðir bráðatæknar á neyðarbílnum og læknar sem áður fóru í útköll frá slökkvistöðinni færast á LSH í Fossvogi og geta farið þaðan í útköll ef þörf krefur.

 

Í fyrrnefndri yfirlýsingu segir að ákvörðun um þessa breytingu hafi verið tekin af yfirstjórn LSH og stjórn SHS án samráðs við félag slysa- og bráðalækna eða sérfræðilækna í bráðalækningum. Um helmingur lækna sem hafi sinnt vöktum á neyðarbílnum hafi hætt eða séu að hætta á slysa- og bráðasviði. Aðrir séu að hugsa sín mál og muni líklega hætta á næstu mánuðum.

 

Læknarnir segja að ætlunin hafi verið að spara með þessu 20 milljónir en sparnaðurinn fyrir almenning verði enginn. Það að senda sjúkrabíl eftir lækni í alvarlegum tilfellum muni lengja viðbragðstíma en í mörgum tilfella geti nokkrar mínútur skilið milli lífs og dauða. „Við teljum að þetta hafi í för með sér verri bráðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og óttumst að það geti leitt til þjáninga og dauðsfalla sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir," segir í yfirlýsingu læknanna. Þá eru íbúar höfuðborgarsvæðisins hvattir til að mótmæla breytingunni.

 

Víðtækt samráð

Björn Zoëga, starfandi framkvæmdastjóri lækninga á LSH, sagði ákvörðun um þessa skipulagsbreytingu hafa verið tekna með vitneskju og í samráði við þá sem best þekkja til bráðaþjónustu. Þeirra á meðal landlækni, Sjúkraflutningaskólann, SHS og sérfræðinga LSH.

Björn sagði rétt að deildarlæknar (þ.e. læknar sem eru í sérnámi) hafi verið ósáttir við þessa breytingu enda mundi hún hafa áhrif á tekjur þeirra. „Háskólamenntaðir bráðaliðar á neyðarbílnum verða í sambandi við slysadeildina. Komi upp forgangsútkall þar sem talið er hjálpa að hafa lækni fer hann frá slysadeild með forgangsakstri," sagði Björn. Hann sagði að fagleg úttekt óháðs aðila hefði ekki getað gert upp á milli þess hvor þessara leiða væri betri frá faglegu sjónarmiði. Þá sagði Björn að fjárhagsleg hagræðing af þessari skipulagsbreytingu yrði mun meiri en 20 milljónir. Einungis kostnaður LSH af vöktum á neyðarbílnum hefði verið yfir 30 milljónir í fyrra. Eins batnaði nýting á fjárfestingu SHS mikið.

 

Már Kristjánsson, sviðsstjóri slysa- og bráðasviðs LSH, sagði lengi hafa verið ljóst að mönnun unglækna á sviðinu 1. mars nk. yrði innan við helmingur af því sem æskilegt væri. Margir unglækna væru að ljúka starfslotum, tveir hefðu ákveðið að fara í fæðingarorlof og einn að færa sig á aðra deild. Einn þeirra sem væru að hætta hefði tilgreint óánægju með skipulagsbreytinguna sem ástæðu fyrir starfslokum á deildinni. Már sagði að sérfræðilæknar sem einnig hefðu unnið á neyðarbílnum væru ekki að hætta störfum.

 

Már sagði að hann ásamt yfirlækni bráðaþjónustu LSH og yfirmönnum SHS hefði verið á fundi með landlækni í gær. Landlæknir hefði verið upplýstur um breytinguna og stutt framkvæmd hennar. Morgunblaðið 16. janúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *