Ekki verður séð að öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu

Slys Bráðatæknar manna nú neyðarbílinn.

LANDLÆKNIR styður þær breytingar sem verða á starfsemi neyðarbílsins á höfuðborgarsvæðinu í dag og telur líklegt að þær verði til bóta.

 

Slys Bráðatæknar manna nú neyðarbílinn.Þetta kemur m.a. fram í bréfi landlæknis til yfirmanna Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) og Slysa- og bráðadeildar Landspítalans (LSH) frá í gær.

 

Í bréfinu rekur landlæknir forsendur fyrir þessum breytingum. Hann nefnir m.a. að þjálfuðum bráðatæknum hafi fjölgað mjög, nýtt skipulag boðunar hafi orðið til með tilkomu Neyðarlínunnar, fjarskiptatækni hafi fleygt fram og unnið sé að endurskipulagningu læknisfræðilegrar stjórnunar neyðarbíls innan slysa- og bráðasviðs LSH. Þá hafi verið unnið að verkferlum um flutning slasaðra og sjúkra og samvinnu SHS og slysa- og bráðasviðs LHS þar að lútandi.

 

Landlæknir vísar til samantektar yfirlæknis á bráðamóttöku Landspítalans um að ekki séu til góðar gagnreyndar upplýsingar um hvernig best sé að standa að mönnun neyðarbíla, einkum hvort menntunargrunnur áhafnar skipti máli svo fremi hún sé vel þjálfuð til að sinna verki sínu. Rannsókn frá Skandinavíu bendi til þess að árangur endurlífgunar sé betri ef reyndur læknir er í áhöfn sjúkabíls samanborið við óreynda. Í Bandaríkjunum sé mikil og traust reynsla af starfi bráðatækna á neyðarbílum. „Skjót viðbrögð skipta mestu máli í hjartastoppi, með grunnendurlífgun og gjöf rafstuðs. Þetta gera bráðatæknar, hjúkrunarfræðingar og læknar vel," skrifar landlæknir.

 

Þá kveðst landlæknir hafa kynnt sér forsendur breytinganna og allmargar rannsóknir sem að þessu lúta. „Það er metið svo að hér sé stigið rétt skref í bættri nýtingu á heilbrigðisþjónustu, án þess að séð verði að öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu nema síður sé. Miklu máli skiptir að vel sé staðið að þessum breytingum og að um þær náist sátt. Einnig er mikilvægt að afdrif sjúklinga séu metin reglubundið, bæði hefur slíkt mat mikið kennslugildi og getur auk þess dregið fram hnökra á fyrirkomulagi fyrr en ella."

 

Í hnotskurn

» Læknir sem hefur verið í áhöfn neyðarbílsins flyst á slysa- og bráðadeild LSH.
» Sé talin þörf á lækni, t.d. við endurlífgun, mun læknir koma frá slysa- og bráðadeild í bíl með forgangsakstri. Fulltingi læknis verður þó fyrst og fremst veitt í gegnum fjarskipti. Morgunblaðið fimmtudaginn 17. janúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *