Mikilvægi hreyfingar fyrir börn með meðfædda hjartagalla

Miðvikudaginn 23. janúar 2008 mun Birna Bjarnason-Wehrens PhD, doktor í íþróttafræðum og endurhæfingu, aðstoðarprófessor við "Institute for Cardiology and Sports Medicine German Sport University", Köln, Þýskalandi, halda fyrirlestur um mikilvægi hreyfingar fyrir börn með meðfædda hjartagalla.

 

Í erindi sínu kemur Birna  meðal annars inná hreyfiþroska, tengsl hreyfingar og almenns þroska og mikilvægi þess að allir sem starfa með þessum börnum og næst þeim standa geti leiðbeint þeim af þekkingu.

Formála flytur Gylfi Óskarsson Dr.med, hjartasérfræðingur barna.

                                                                                                                

Fyrirlesturinn verður í sal ÍSÍ að Engjavegi 6 (vestasta húsið), 2. hæð, miðvikudaginn 23. janúar 2008 kl. 17:15. Fyrirlesturinn er hugsaður fyrir íþróttakennara, sjúkraþjálfara, leikskólakennara, foreldra, kennara og aðra sem koma að uppeldi, þjálfun og kennslu hjartveikra barna, en allir áhugasamir eru velkomnir. Aðgangur ókeypis.

 

Birna Bjarnason-Wehrens er íslensk kona, doktor í íþróttafræðum og  endurhæfingu frá German Sport University í Köln, Þýskalandi. Hún hefur skrifað margar greinar og tekið þátt í rannsóknum um hreyfingu/þjálfun hjartasjúklinga og hefur haft sérstakan áhuga á að skoða hreyfingu og hreyfiþroska hjá börnum með meðfædda hjartagalla. Hún hlaut meðal annars verðlaun evrópsku hjartasamtakanna (European Society of Cardiology) árið 2006 fyrir kynningu sína á rannsókn sem hún gerði á hreyfiþroska barna með meðfædda hjartagalla borið saman við heilbrigða jafnaldra. 

Vonumst til að sjá sem flesta, kveðja stjórn Neistans.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *