Mikilvægt að rétt sé staðið að förgun lyfja þar sem í þeim geta verið eiturefni

Lyf Apótekin sjá um förgun vannýttra lyfja.

MUN ódýrara er fyrir sjúkling, sem reglulega þarf lyfjaskammt, að fá þriggja mánaða skammt en t.d. til eins mánaðar. Ástæðan er að greiðslukerfið virkar þannig að þak er á kostnaði sjúklingsins.

 

Lyf Apótekin sjá um förgun vannýttra lyfja.Sem dæmi má nefna lyf sem kostar 10.000 krónur. Sjúklingur greiðir t.d. 3.000 krónur fyrir mánaðarskammt, miðað við að sú tala sé þakið. Á þremur mánuðum greiðir hann kostnaðinn þannig þrisvar, alls 9.000 krónur. Ef sjúklingurinn hins vegar fær þriggja mánaða skammt í einu kostar lyfið 30.000 krónur í heildina, þakið er hið sama og kostnaður sjúklingsins því eingöngu 3.000 kr.

Í frétt í Morgunblaðinu í gær kom fram að apótekin hentu á tilteknu tíu mánaða tímabili fimm tonnum af vannýttum lyfjum. „Það eru margar ástæður fyrir því að lyfjum er hent," segir Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar. Reglur eru um að ónotuðum lyfjum eigi að skila til apótekanna en Rannveig segir ljóst að fólk hendi jafnframt lyfjum sjálft og engin leið sé að gera sér grein fyrir hversu miklu magni er hent þannig.

 

Birgðastýring getur verið ástæða þess að lyfjum er hent og að sjúklingar taki ekki lyfin sín, sem m.a. kemur til af því að sjúklingum finnist lyfið ekki verka sem skyldi, það hafi óæskileg áhrif og jafnvel að fólk hafi ekki nægar upplýsingar til að vita hvernig taka á lyfið rétt. „Síðan getur vel verið að fólk hafi fengið þriggja mánaða skammt af því að leyft er að ávísa til þriggja mánaða í senn og svo komi í ljós að sjúklingur þoli ekki lyfið. Þá hættir hann náttúrlega að taka það," segir Rannveig. Þessu til viðbótar nefnir hún stóra skammta.

 

Eina leið til úrbóta í þessum efnum segir Rannveig vera að afgreiða minna magn í einu. „Það er að segja að skammta lyfin þannig að sjúklingur geti t.d. farið viku- eða mánaðarlega og fengið skammtinn, þá fái hann nákvæmlega það sem hann eigi að taka. Slík skömmtun myndi líka hjálpa til við að lyf séu tekin rétt, af því að það er merkt hvernig á að taka þau og auðveldara að fylgjast með því þannig."

 

Rannveig segir þó að aldrei verði alveg hægt að koma í veg fyrir að lyfjum verði hent, þar sem lyf fyrnast og alltaf verður eitthvað um að ávísað sé lyfjum sem fólk síðan þoli ekki.

 

Nýtt kerfi í gagnið 1. maí?

Nefnd er að störfum, undir forystu Péturs H. Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokks. Hlutverk hennar er að endurskoða greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu. Vonast er til að nýtt kerfi varðandi lyfjakostnað komist í gagnið 1. maí. „Nú er umræðan um að breyta greiðslukerfinu þannig að það verði ekki hvetjandi að afgreiða meira en minna," segir Rannveig.

 

Mikilvægt er að rétt sé staðið að förgun lyfja, um getur verið að ræða eiturefni sem geta komið sér illa fyrir náttúruna. „Æskilegast er að fólk fari með vannýtt lyf í apótekin, þannig að þeim sé fargað á réttan hátt. Í sumum tilvikum eru þetta einfaldlega eiturefni, t.d. má segja það um krabbameinslyf, þau eru hættuleg og ekki æskilegt að þau séu í náttúrunni. Mjög óæskilegt er að fleygja sýklalyfjum í klósettið, þá er mögulega verið að ala upp bakteríur sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum og það er alls ekki sniðugt að hormónalyfin fari út í náttúruna, svona sem dæmi," bendir Rannveig á. Morgunblaðið laugardaginn 19. janúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *