Lyfjaávísanir enn í gegnum síma eða á staðnum

ENN UM sinn verður ekki hægt að biðja um endurnýjun á lyfseðli rafrænt um netið en í mars nk. verður þeim áfanga náð að allar heilsugæslustöðvar á landinu geta sent lyfseðla með rafrænum hætti í lyfjaverslanir.

 

Sjúklingar þurfa þó áfram að fara á heilsugæslustöð til að fá lyfseðla eða hringja á símatíma til að fá þá endurnýjaða. Hins vegar stendur til hjá heilbrigðisráðuneytinu að koma á því kerfi að fólk geti sótt um endurnýjun fjölnota lyfseðla rafrænt í gegnum netið. Það verður þó ekki að veruleika fyrr en rafræn auðkenni, eða rafræn skilríki svokölluð, verða komin í gagnið en þau eru forsenda opinberrar þjónustu sem þessarar á netinu. Þau eru nokkurs konar vegabréf í netheimum og leið til rafrænnar undirskriftar. Þróun þeirra er á könnu fjármálaráðuneytisins.

 

Hægt að ná í lyfseðil í hvaða apótek sem er

Breytingin með rafrænu lyfseðlunum felur í sér að í stað þess að prenta út lyfseðil eða hringja í apótek sendir læknir lyfseðilinn annaðhvort beint í svokallaða lyfseðlagátt, sem heitir Hekla, eða í valið apótek samkvæmt ósk sjúklings. Ef lyfseðillinn er sendur beint í lyfseðlagáttina getur hvaða apótek sem er, sem er tengt lyfseðlagáttinni, sótt rafrænt viðkomandi lyfseðil. Ef lyfseðill er sendur beint á ákveðið apótek kemur hann fram þar.

 

„Verklag við að ávísa lyfseðlum breytist ekki, eftir sem áður eru það eingöngu læknar sem gefa út lyfseðla eftir að hafa séð sjúkling á stofu eða eftir símtal ef til dæmis um endurnýjun á lyfseðli er að ræða," segir Gunnar Alexander Ólafsson, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu. Hann bendir á að sumar heilsugæslustöðvar bjóði upp á endurnýjun með tölvupósti. Sjúklingur getur þá sent tölvupóst um hvaða lyf hann þarf að endurnýja og læknir sendir lyfseðilinn rafrænt í apótekið.

 

Í framtíðinni er hins vegar ætlunin að fólk geti sótt um endurnýjun á lyfseðli í gegnum netið og sparað þannig sporin út á heilsugæslustöð eða tíma við símann. „Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær þetta gerist," segir Gunnar. Erfitt sé að segja nákvæmlega hvenær slík vinnubrögð gætu orðið að veruleika en vonandi innan 2-3 ára. „Það er mikill vilji innan heilbrigðisráðuneytisins til að setja þetta mál á dagskrá og breyta í betra horf." Morgunblaðið þriðjudaginn 5. febrúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *