Lyfin ódýrari í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi

Lyfjamynd

Lyf eru um átta prósentum dýrari í Danmörku en hér, samkvæmt könnun SVÞ. Fréttablaðið bar Ísland saman við hin Norðurlöndin, og þar eru lyfin ódýrari.

LyfjamyndHöfum yfirleitt borið okkur saman við Danmörku, segir formaður lyfsalahóps SVÞ.

 

Lyfjaverð er hærra á Íslandi en í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, en lægra en í Danmörku. Verðið var kannað á þeim tuttugu lyfjum sem apótekin selja mest af í krónum talið.

 

Að meðaltali eru lyfin um átta prósentum dýrari í Danmörku en hér, 6,1 prósenti ódýrari í Noregi og 5,5 prósentum ódýrari í Finnlandi. Munurinn var minnstur á Íslandi og Svíþjóð, en þar eru lyfin 0,6 prósentum ódýrari.

 

Samanburðurinn á milli Íslands og Danmerkur var gerður af lyfsalahóp Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ). Fréttatilkynning barst frá þeim í gær þar sem lyfjaverð er sagt 7,5 prósentum lægra hér en í Danmörku. Það jafngildir því að lyfin séu um átta prósentum dýrari þar en hér.

 

Í tilefni af tilkynningu SVÞ kannaði Fréttablaðið verð á sömu lyfjum í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og bar saman við íslensku verðin. Niðurstaðan var að þótt lyfin séu ódýrari á Íslandi en í Danmörku, eins og kemur fram í tilkynningunni, þá eru þau dýrari hér en í hinum löndunum. Þessi fjögur lönd eru viðmiðunarlönd Íslands þegar kemur að lyfjaverði samkvæmt reglugerð um lyfjagreiðslunefnd.

Sé tekið meðaltal af verði þessara lyfja í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi kemur í ljós að verðið á Íslandi er einu prósenti hærra.

 

"Við vorum fyrst og fremst að svara gagnrýni þar sem verið er að bera saman verð í Danmörku og hér," segir Þórbergur Egilsson, formaður lyfsalahóps SVÞ, aðspurður hvers vegna hópurinn hafi ekki líka borið saman íslensku verðin við þau sænsku, norsku og finnsku. "Við höfum undanfarin ár verið að bera okkur saman við Dani."

 

Tekið skal fram að íslensk apótek mega ein veita afslátt af opinberu verði, sem ákveðið er af ríkinu í hverju landi, en í hinum fjórum viðmiðunarlöndunum er það bannað. Í einhverjum tilvikum gæti verðið því verið lægra hér en kom fram í könnuninni. Fréttablaðið fimmtudaginn 7. febrúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *