Mögulegt að gera mun fleiri aðgerðir

Í LOK janúar sl. biðu 139 einstaklingar á deildum Landspítalans eftir framhaldsúrræðum. Sextíu bíða á geðsviði, flestir eftir sambýli, 58 bíða á öldrunarsviði eftir vist á hjúkrunarheimili og 21 bíður á öðrum deildum, flestir eftir vist á hjúkrunarheimili.

 

Rúmlega 2.500 legudagar voru á síðasta ári skráðir sem biðdagar sjúklinga sem höfðu lokið meðferð á bæklunardeildum spítalans, en biðu úrræðis. Voru þeir og tæplega 1.800 árið á undan. Ef mögulegt hefði verið að nýta alla þessa legudaga fyrir aðgerðarsjúklinga hefði verið hægt að fjölga aðgerðum um allt að 360 á árinu 2006 og nálægt 500 aðgerðum á síðasta ári. Líkur má leiða að því að sú viðbót hefði orðið til þess að fækkað hefði svo um munaði á biðlista eftir bæklunaraðgerðum. Þetta kemur fram í nýjasta hefti Starfsemisupplýsinga LSH.

 

Í janúar biðu 544 eftir bæklunaraðgerðum á LSH, þar af höfðu 376 beðið lengur en þrjá mánuði. 1.356 manns bíða eftir

aðgerð á augasteini og hafa 1.010 beðið lengur en í þrjá mánuði. Nú er verið að taka í notkun nýja skurðstofu við augndeild spítalans og mun bið eftir aðgerð á augasteini styttast til mikilla muna á næstu mánuðum.

 

Um helmingur þeirra sjúklinga sem þurfa á bæklunaraðgerðum að halda gerir það í kjölfar bráðra slysa eða óhappa. Stór hluti þess hóps eru aldraðir einstaklingar sem þurfa oft lengri legutíma, sérhæfða endurhæfingu og öldrunarþjónustu í kjölfar bráðameðferðar á bæklunardeildum.

 

Í Starfsemisupplýsingum kemur fram að undanfarin ár hefur reynst erfitt að finna viðeigandi úrræði og of stór hluti þessa hóps þurft að dvelja langdvölum á bráðadeildum.

 

Unnið hefur verið að fækkun biðsjúklinga á LSH í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið, m.a. með samningum við nágrannasjúkrahúsin og nokkur hjúkrunarheimili.

Morgunblaðið þriðjudaginn 12. febrúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *