Erfitt og krefjandi starf en gefandi

Sjúkraflutningar Ármann Höskuldsson er umsjónarmaður sjúkraflutninganna í Árnessýslu. Hér er hann í vinnuumhverfinu, inni í einum af sjúkrabílum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Bílarnir þurfa að vera vel búnir.

Rúmlega tvö ár eru síðan Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi tók við sjúkraflutningnum í Árnessýslu af lögreglunni sem hafði séð um flutningana frá upphafi. Ármann Höskuldsson úr Vestmannaeyjum, fæddur 1977, er umsjónarmaður sjúkraflutninganna.

 

Sjúkraflutningar Ármann Höskuldsson er umsjónarmaður sjúkraflutninganna í Árnessýslu. Hér er hann í vinnuumhverfinu, inni í einum af sjúkrabílum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Bílarnir þurfa að vera vel búnir. Þegar Ármann starfaði hjá lögreglunni í Árnessýslu tók hann að sér að sjá um að viðhalda sjúkrabílunum, ásamt Elísi Kjartanssyni lögreglumanni. Hann tók við umsjón þeirra þegar þeir fluttust til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

 

Heilbrigðisstofnun heldur úti fjórum sjúkrabílum sem Rauði krossinn útvegar. Að öllu jöfnu eru tveir bílar mannaðir allan sólarhringinn en á stórum ferðahelgum yfir sumartímann eru fleiri bílar til reiðu. Ef stór áföll verða eru allir tiltækir sjúkraflutningamenn kallaðir út og allir bílarnir mannaðir.

 

63% aukning á útköllum

„Sjúkraflutningarnir hafa þróast verulega frá því við tókum við, enda erum við nú með atvinnulið sem sinnir aðeins sjúkraflutningum og engu öðru. Til að mynda voru útköll lögreglunnar vegna sjúkraflutninga um 780 árið 2003, þegar ég byrjaði í lögreglunni á Selfossi og var það metár. Á síðasta ári voru um 1.650 útköll hjá okkur og er það 63% fjölgun á útköllum á aðeins fjórum árum. Þar af eru liðlega 600 bráðaútköll. Viðbragðstími okkar miðast við hverskonar útkall er um að ræða. Bráðaútköllum er að sjálfsögðu sinnt strax, en sýslan er stór og það tekur tíma að komast á áfangastað, sérstaklega ef færð er slæm. Við höfum það ávallt í huga að betra er að fara hægar yfir og komast á staðinn heldur en ekki."

 

Ármann segir að í dag séu hans menn að sinna að meðaltali um 4,5 útköllum á dag, en það þýði þó ekki að þannig sé það alla daga. Til að mynda hafi verið 72 dagar á síðasta ári þar sem var verið að sinna 7 útköllum eða fleirum og í eitt skipti voru 17 útköll sama sólarhringinn, en þá var verið með meira og minna alla fjóra sjúkrabílana úti.

 

„Árnessýsla er nokkuð stór og mikil yfirferðar og gríðarlegur fjöldi fólks fer um sýsluna á degi hverjum. Af þessum sökum getur það tekið okkur langan tíma að komast á vettvang og þegar við erum komnir á staðinn verðum við að sinna okkar sjúklingum lengur en margir aðrir sjúkraflutningamenn þurfa að venjast, eins þurfum við að búa bílana okkar með öðrum hætti en tíðkast þar sem flutningar eru styttri," segir Ármann.

 

En hvernig gengur honum að ráða til sín sjúkraflutningamenn? „Það hefur gengið vonum framar að manna stöðurnar og höfum við hingað til getað valið úr umsækjendum. Reyndar er það þannig að það hefur einungis einn hætt frá því við tókum við en hann fór til starfa hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, þannig að starfsmannavelta hefur nánast engin verið. Allir sjúkraflutningamennirnir hjá okkur eru með löggildingu og er það stefna okkar að ráða ekki inn menn nema að þeir hafi lokið grunnnámi sjúkraflutningamanna. Nýlega luku fjórir sjúkraflutningamenn hjá okkur neyðarflutningsnámi og til starfa kom einn bráðatæknir. Þannig að nú sinna þeir öllum bráðaflutningum sem upp koma. Það er svo stefna okkar að fjölga þeim enn frekar sem lokið hafa þessu námi."

 

Hugsjónastarf

En hvað er það við starf sjúkraflutningamannsins, sem er svona áhugavert? „Það er nú einu sinni þannig að þetta er að mörgu leyti hugsjónarstarf. Þetta er í senn erfitt og krefjandi starf en um leið gefandi. Ætli það að geta haft tækifæri á því að hjálpa samborgaranum í nauð sé ekki það sem gerir þetta áhugavert?"

 

En framtíð flutninganna hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, hvernig sér Ármann hana? „Ég sé fyrir mér áframhaldandi uppbyggingu og þá sérstaklega á tæknisviðinu. Við erum tiltölulega aftarlega í tækniþróun á þessu sviðið, samanborið við nágrannalöndin og ég sé fyrir mér að það muni breytast til hins betra. Að lokum bið ég fólk að fara varlega í umferðinni og muna eftir neyðarnúmerinu 112," sagði Ármann.

 

Í hnotskurn

» Ármann Höskuldsson, umsjónarmaður sjúkraflutninga í Árnessýslu, hefur einnig starfað sem lögreglumaður, hóf störf sem slíkur á Ísafirði árið 2000, lauk prófi frá lögregluskólanum 2002 og byrjaði þá að starfa í lögreglunni í Árnessýslu.

» Hann lauk neyðarflutningsnámi hjá 2003 og hefur síðan þá sótt fjölda námskeiða hér heima og erlendis. Ármann er yfirleiðbeinandi í fyrstu hjálp hjá Björgunarskóla Landsbjargar.

Morgunblaðið laugardaginn 16. febrúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *