Heilbrigðisþjónusta tryggð til framtíðar

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir

„Ég er ráðin hingað af heilbrigðisráðherra til þess að endurskipuleggja framkvæmd sjúkra- og slysatrygginga. Það felur meðal annars í sér að skipta upp Tryggingastofnun, annars vegar í lífeyrisstofnun og hins vegar stofnun sem annast sjúkra- og slysatryggingarnar og það er mitt verkefni," segir Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir. Hún sinnir því mikla verkefni að undirbúa stofnun sjúkratryggingastofnunar sem á að taka til starfa 1. september á þessu ári. Stofnunin mun hafa það hlutverk að kaupa heilbrigðisþjónustu fyrir hönd landsmanna.

 

Sigurbjörg SigurgeirsdóttirSkýr markmið

Sigurbjörg segist sjaldan hafa séð með jafnskýrum hætti í stjórnarsáttmála hvert ríkisstjórnin vill fara í heilbrigðismálum. „Ríkisstjórnin ætlar að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og þess sem ákvarðar hvaða heilbrigðisþjónustu við ætlum að kaupa og með hvaða skilyrðum," segir Sigurbjörg.

 

Hún segir að þegar hún tali um kaupendur og seljendur sé það ekki í hefðbundnum skilningi þeirra hugtaka. „Þau eru fyrst og fremst notuð til þess að skýra hlutverk þessara aðila. Einn er að semja um kaup á heilbrigðisþjónustu. Aðrir eru í því að framkvæma þjónustuna og við köllum þá seljendur," segir hún. „Þetta er fyrirkomulag sem gerir kerfið gegnsærra þannig að við getum staðið betur að samningum og samningagerð í heilbrigðisþjónustu.

 

Trygging til framtíðar

Með því að sameina þá starfsemi innan heilbrigðiskerfisins sem fæst við kaup á heilbrigðisþjónustu og úthlutun á fjárlagarömmum í einni stofnun styrkist hlutverk ríkisins sem kaupanda," segir Sigurbjörg. Hún segir að engin áform séu um að breyta fjármögnuninni. „Við erum að breyta skipulaginu á því hvernig við förum með fjármagnið. Heilbrigðisþjónustan verður áfram fjármögnuð með sköttum en núna á að fara fram með blandaða fjármögnun," segir Sigurbjörg og útskýrir: „Blönduð fjármögnun þýðir það að heilbrigðisstofnun sem hingað til hefur eingöngu fengið greitt með föstum fjárlögum mun í nýju fyrirkomulagi, þegar þar að kemur, mögulega jafnframt fá afkastatengdar

greiðslur."

 

Hún segir markmiðið vera að ná meiri gæðum, fleiri valkostum og meiri hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu. „Þetta mun tryggja það til lengri tíma að við getum viðhaldið heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Það getum við aðeins gert með því að hafa skipulagða stýringu á kerfinu í heild sinni. 

 

Einkarekstur er sérákvörðun

Við erum nú þegar með umtalsvert mikinn einkarekstur í okkar heilbrigðiskerfi. Við erum til dæmis með meiri einkarekstur en Bretar og Svíar í dag," segir Sigurbjörg aðspurð hvort þessi breyting muni leiða til aukins einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu. „Það er ekki beint samband á milli þessa fyrirkomulags og aukins einkarekstrar. Það sést í Svíþjóð og í Bretlandi. Það þarf sérstaka ákvörðun og stefnumótun til þess að koma á auknum einkarekstri. Það er ákvörðun út af fyrir sig," bætir hún við. Sigurbjörg segir það þó ekkert vafamál að þessi aðgerð muni styrkja verulega samningsstöðu ríkisins fyrir hönd skattgreiðendanna þegar samið er við þjónustuveitendur, hvort sem um er að ræða opinber sjúkrahús, einkasjúkrahús eða einkaaðila. „Það sem nú er að gerast er að í fyrsta skipti er staðið skipulega að því hvert fjármagnið fer og hvert við viljum láta það fara."

 

Fleiri valkostir

Sigurbjörg segir það vera hluta af ábyrgð nýrrar stofnunar að koma því í kring að um eitthvað sé að velja í heilbrigðisþjónustunni til að hægt sé að tala um valfrelsi notendanna. „Það þarf að vera  möguleiki á samanburði og það þarf að vera þjónusta á fleiri en einum stað, þar sem hægt er að koma því við."

 

Hún segir að notendur ættu, þegar fram í sækir, að verða varir við að þeir geta fengið tiltekna þjónustu á fleiri stöðum. „Það er tvenns konar val sem um er að ræða. Annars vegar val fyrir einstaklinga, sem þeir hafa nú á milli sérfræðinga en munu fá líka á milli sjúkrahúsa. Að öðru leyti verður þetta kannski ekki mikil tæknileg breyting. Samhliða þessu verður lögð mikil áhersla á upplýsingavæðingu, þannig að notendur eiga eftir að fá aðgang að upplýsingum um heilbrigðisþjónustuna í meiri mæli í gegnum netið.

 

Heilbrigðisþjónusta fyrir alla

Það er alveg skýrt hjá ríkisstjórninni að það á að vera jafn aðgangur að heilbrigðiskerfinu óháð efnahag. Það er alveg gegnumgangandi pólitísk samstaða um það og það er ekkert að breytast sýnist mér. Breytingar þar á eru hreinlega allt önnur ákvörðun," segir Sigurbjörg aðspurð með hvaða hætti þessar breytingar muni snerta notendur. „Það er ekkert að því að einkaaðilar sinni þessari þjónustu svo framarlega sem öllum er tryggður aðgangur að henni og að þjónustan verði greidd úr opinberum sjóðum."

24 stundir laugardaginn16. febrúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *