Skrykkjótt líkamsrækt sést á vigtinni

Skokkað Það getur verið dýrkeypt að taka sér hlé frá hlaupunum því hætta er á að erfitt reynist að losna við aukakílóin sem hlaðast á í fríinu.

ÞAÐ eru engin ný vísindi að regluleg hreyfing sé góð fyrir kroppinn og kjörþyngdina. Hins vegar er dýrkeyptara að gefast upp á ræktinni en hingað til hefur verið talið. Skrykkjótt hreyfing getur verið hluti ástæðu þess að margir berjast við aukakílóin, samkvæmt rannsókn sem forskning.no greinir frá.

 

Skokkað Það getur verið dýrkeypt að taka sér hlé frá hlaupunum því hætta er á að erfitt reynist að losna við aukakílóin sem hlaðast á í fríinu. Í raun þarf hlutfallslega lítinn viljastyrk til að byrja að stunda íþróttir. Því bera stútfullir æfingarsalir líkamsræktarstöðvanna vitni í byrjun ár hvers. Aðeins lítill hluti fólks er nægilega staðfastur til að halda uppi reglubundinni hreyfingu, viku eftir viku og ár eftir ár. Margir ganga í staðinn í gegnum orkumikil æfingatímabil sem endast mislengi og á eftir fylgja löng hlé þar sem íþróttaskórnir safna ryki.

 

Ofangreind rannsókn verður kannski til þess að hvetja einhvern til að draga íþróttaklæðin fram á ný. Samkvæmt henni hrannast kílóin nefnilega upp á líkamann á letitímabilunum, og þau kíló getur verið snúið að losna við.

 

Vel þjálfaðir þola pásurnar betur

Rannsóknin byggist á upplýsingum frá u.þ.b. 30 þúsund bandarískum hlaupurum af báðum kynjum sem fylgt var eftir í tæplega átta ár. Skoðað var hvað gerist þegar misþjálfaðir hlauparar taka sér hlé frá þjálfuninni.

 

Í ljós kom að sumir þoldu pásurnar betur en aðrir. Ákveðin fylgni var á milli líkamsþyngdar og þjálfunar hjá karlmönnum sem hlaupa a.m.k. 30 kílómetra á viku og konum sem hlaupa a.m.k. 15 kílómetra á viku. Kílóin sem bætast á þau í þjálfunarhléum renna af þeim aftur þegar þau taka upp reglulegt æfingarprógramm á ný.

 

Öllu verra er það fyrir þá sem æfa minna að staðaldri. Eins og búist var við þyngjast þeir líka í þjálfunarhléum en þegar þeir taka hlaupaskóna fram á ný losna þeir ekki við hin nýfengnu aukakíló. Reglulegt æfingaprógramm þeirra dugar ekki til að þeir komist í gamla formið á ný.

 

Í staðinn þurfa þessir hlauparar að lengja reglubundin hlaup vikunnar til að brenna fitunni sem bætist á í hléunum, karlar upp í u.þ.b. 30 kílómetra og konur í u.þ.b. 15 kílómetra.

 

Vísindamennirnir segja þetta sýna mikilvægi þess að vera staðfastur og halda uppi reglulegri þjálfun, sérstaklega hjá þeim sem kjósa meðalstíft eða létt æfingarprógramm. Þeir telja einnig að rannsóknin geti gagnast í baráttunni við offitu almennings.

Að þeirra mati er ekki nóg að heilbrigðisyfirvöld leggi áherslu á að fá kyrrsetufólk til að hreyfa sig heldur þarf markmiðið að vera að þeir sem byrja að hreyfa sig haldi því áfram.

Morgunblaðið laugardaginn 16. febrúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *