Spennandi tímar framundan

Spenntur Halldór Sævar Guðbergsson, nýkjörinn formaður Öryrkjabandalagsins, segist spenntur að takast á við krefjandi verkefni.

Nýr formaður ÖBÍ hlakkar til að takast á við ný og krefjandi verkefni.

 

Spenntur Halldór Sævar Guðbergsson, nýkjörinn formaður Öryrkjabandalagsins, segist spenntur að takast á við krefjandi verkefni.„ÞETTA leggst afar vel í mig. Ég er mjög spenntur að takast á við ný og krefjandi verkefni," segir Halldór Sævar Guðbergsson, nýkjörinn formaður Öryrkjabandalags Íslands. Aðspurður hver séu helstu verkefni framundan í nýju starfi segir Halldór að hann þurfi auðvitað að setja sig inn í öll þau mál sem verið hafi í gangi á vegum ÖBÍ. „Öryrkjabandalagið hefur verið í stefnumótunarvinnu, henni er ekki lokið og það verður m.a. mitt verkefni ásamt öllu því góða fólki innan ÖBÍ að klára hana eins fljótt og auðið er. Ég legg mikla áherslu á að vinna núna mikið inn á við í Bandalaginu, styrkja það og efla til þess að við komum sterkari út í samfélaginu," segir Halldór og bendir á að ÖBÍ samanstandi af 32 aðildarfélögum sem séu ólík í grunninum, en eigi það þó öll sameiginlegt að vilja bæta kjör öryrkja og sjúklinga í landinu.

 

Spurður hvernig sé að taka við formennsku á þeim umbrotatímum sem ríkt hafi innan ÖBÍ að undanförnu segist Halldór vilja horfa fram á við.

 

Skynjar mikla samstöðu

„Ég skynjaði á fundinum í gær [aukafundi milli aðalfunda ÖBÍ sem haldinn var sl. fimmtudag] mikla samstöðu. Ég held að þetta verði bara mjög spennandi tími fyrir ÖBÍ. Auðvitað mun ég leggja mig fram um að leysa deilumál ef þau eru til staðar," segir Halldór og tekur fram að hann muni nýta tímann fyrst um sinn til þess að hitta forsvarsmenn allra aðildarfélaga ÖBÍ til þess bæði að kynna sig og kynnast starfsemi viðkomandi félaga.

 

En hver er maðurinn? „Ég er fæddur 1971 og uppalinn í Reykjavík. Fljótlega eftir fæðingu greindist ég með alvarlegan augnsjúkdóm og hef verið sjónskertur frá fæðingu. Í dag er ég með innan við 10% sjón á hægra auganu en blindur á því vinstra. Ég lauk stúdentsprófi af félagsfræðibraut MH 1993 og íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands 1995. Síðan hef ég starfað hjá Blindrafélaginu sem markaðsfulltrúi og sem formaður á árunum 1999-2001 og aftur frá 2005, hjá Fjölmennt, fullorðinsfræðslu fatlaðra, við íþrótta- og sundkennslu. Ég hef starfað mikið við sundþjálfun, m.a. hjá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík og Öspinni. Síðan hef ég starfað mikið að félagsmálum innan Blindrafélagsins."

 

Halldór er búsettur á Akureyri þar sem hann er í sambúð með Sigurlaugu Ástu Grétarsdóttur þroskaþjálfara og kennara, en saman eiga þau dótturina Ernu Rún sem er sex ára. Aðspurður segir Halldór ekki á stefnuskránni að flytjast til Reykjavíkur þar sem skrifstofa ÖBÍ er til húsa. Segist hann reikna með að vera þrjá daga í viku í Reykjavík, en vinna þess á milli frá Akureyri. „Því mörg erindanna er hægt að leysa einfaldlega gegnum síma eða tölvupóst." Morgunblaðið laugardaginn 16. febrúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *