Ný viðhorf í lyfjamálum

Hraust Rúna Hauksdóttir Hvannberg, formaður lyfjaafgreiðslunefndar, hefur ekki sjálf þurft á lyfjum að halda.

Lyf eru hluti af raunveruleika mjög margra, í mismunandi mæli þó. Þeir sem leggjast inn á sjúkrahús fá ókeypis lyf meðan á sjúkrahúsvist stendur, en hinir sem eru heima og er ávísað lyfseðilsskyldum lyfjum kaupa þau í lyfjabúðum og borga oft talsvert háar upphæðir í lyfjakostnað.

 

Hraust Rúna Hauksdóttir Hvannberg, formaður lyfjaafgreiðslunefndar, hefur ekki sjálf þurft á lyfjum að halda. Rúna Hauksdóttir Hvannberg er nýr formaður lyfjagreiðslunefndar, en sú nefnd fer með stórt hlutverk í verðákvörðunum lyfja. Rúna er lyfjafræðingur og heilsuhagfræðingur og því vel undir þetta starf búin.

 

„Ég hef töluverða þekkingu á lyfjum og þeirri hagfræði sem liggur að baki notkun þeirra," segir Rúna, er stýrir nú lyfjagreiðslunefnd sem skipuð er af ráðherra til fjögurra ára. Í nefndinni eru fimm aðilar, fagfólk svo sem læknar, lyfjafræðingar og hagfræðingar. Í haust var skipt um formann nefndarinnar. Nýr heilbrigðisráðaherra tók við störfum í vor og oft er það svo að í kjölfar slíkra umskipta er skipt um formenn nefnda sem starfa í umboði viðkomandi ráðherra.

 

Rúna kveðst ekki hafa unnið sem lyfjafræðingur í apóteki síðan hún lauk námi sem slíkur, en hún starfaði í Reykjavíkurapóteki meðfram skólanámi og það vakti áhuga hennar á þessu fagi.

 

„Mér fannst svo gaman að vinna í apótekinu að ég var ákveðin í að verða lyfjafræðingur," segir hún. „Ég lauk námi sem lyfjafræðingur úr fyrsta árgangi sem útskrifaðist hér úr Háskóla Íslands," segir hún.

Rúna er Reykvíkingur, fædd þar 1962 og alin upp. Hún lauk stúdentsprófi 1982 frá Menntaskólanum í Reykjavík og lyfjafræðiprófi frá HÍ 1987.

 

Lyfjafræði fylgir ákveðin verslun

„Lyfjafræði er öðruvísi en ýmis önnur heilbrigðisfög, henni fylgir ákveðin verslun, einkum í útlöndum. Ég fór í klíníska lyfjafræði til Bretlands og lauk mastersprófi í henni frá London. Klínísk lyfjafræði felur í sér m.a. að kynna sér hvernig lyfin virka í líkamanum," segir Rúna.

 

-En skyldi hún sjálf hafa tekið mikið af lyfjum?

„Nei, ég hef verið mjög hraust og ekki þurft á þeim að halda. En þau eru sannarlega góðra gjalda verð þar sem þau eiga við."

Rúna starfaði hjá Lyfjaverslun ríkisins sem markaðsstjóri og tók þátt í því þegar lyfjaverslunin var einkavædd og varð að Lyfjaverslun Íslands, sem var með fyrstu félögunum á hlutafélagamarkaði.

 

„Þar sat ég í stjórn sem fulltrúi þeirra starfsmanna sem áttu hlutafé í því félagi," segir hún.

„Svo vann ég í sjö ár fyrir bandarískt lyfjafyrirtæki hér á Íslandi, mörg erlend lyfjafyrirtæki hafa skrifstofur hér. Fyrirtækið sem ég vann hjá verslaði m.a. með geðlyf, sykursýkislyf og lyf við beinþynningu."

 

Miklar breytingar hafa orðið á lyfjamarkaði sl. 20 ár

-Hafa ekki orðið miklar breytingar á lyfjamarkaðinum frá því þú laukst námi? „Jú, það hafa orðið töluverðar breytingar, flest þau lyf sem valdið hafa straumhvörfum hafa komið á markaðinn á sl. tuttugu árum," svarar Rúna.

 

„Það hafa líka orðið gífurlega miklar breytingar á starfsumhverfi lyfjafræðinga. Vettvangur þeirra var nær eingöngu í apótekum þegar ég hóf nám, þetta hefur algjörlega breyst, nú eru ekki lengur flestir lyfjafræðingar í apótekum. Eignarhald á apótekum hefur líka breyst mjög mikið á þessum tíma. Áður var leyfum fyrir rekstri apóteka úthlutað en nú eru komnar lyfjaverslunarkveðjur. Ekki má gleyma að einn stærsti framleiðandi samheitalyfja er hér á Íslandi – Actavis, né má gleyma De Code og starfinu þar. Það eru ekki margar starfsstéttir sem hafa upplifað svona miklar breytingar á þessu tímabili."

 

-Gerir þetta ekki kröfur um mikla endurmenntun? „Jú, og ekki síður um mikla aðlögunarhæfni, – sem og sýn á það hvar liggja tækifæri."

-Hvert er verksvið lyfjagreiðslunefndar? „Að taka til umfjöllunar verð á lyfjum, ákveða verðið og samþykkja og ákveða greiðsluþátttöku – í hvaða lyfjum er greitt og hver sú upphæð er."

 

-Fólki þykja lyf dýr á Íslandi!

„Það er bæði hægt að játa því og neita að lyfjaverð sé hátt á Íslandi," svarar Rúna. „Ákveðin lyf eru dýr á Íslandi ef borið er saman við Norðurlöndin en önnur ekki. Um er að ræða bæði heildsöluverð lyfja og smásöluverð þeirra. Heildsöluverð er ákveðið af lyfjagreiðslunefnd, heildsöluverð frumlyfja á Íslandi er komið niður í meðaltalsverð á Norðurlöndum. Smásöluverð, þ.e. verð sem lyfin eru seld á út úr apótekum, er enn talsvert hærra en í löndunum í kringum okkur."

 

-Hvers vegna?

„Smásöluálagning er föst, hún er ákveðin af lyfjagreiðslunefnd í samráði við fulltrúa smásala og það er ljóst að smásöluálagning er ívið hærri en í nágrannalöndunum."

-Hvers vegna?

„Það er ekki óeðlilegt að á Íslandi sé álagning á lyfjum hærri en í nágrannalöndum. Það skýrist að hluta til af því að hér eru fremur fá samheitalyf á markaði, það gerir smæð hans."

 

Unnið er að endurskoðun álagningar á lyfseðilsskyldum lyfjum

-Er verið að reyna að breyta þessu?

„Við erum í viðræðum við lyfjabúðirnar um að endurskoða álagninguna. Þetta er ákveðið samningsferli. Einnig er verið að breyta sjúkratryggingakerfinu öllu. Svokölluð Pétursnefnd er að skoða það mál og þar koma lyf inn í. Þá breytast forsendur og það verður hægt að breyta ýmsu, líklega líka álagningu á lyf."

 

-Væri ástæða til að taka út láglaunahópa sem fengju lyf á lægra verði en aðrir?

„Það væri að mínu mati mjög misráðið að blanda saman sjúkratryggingakerfi og félagslega kerfinu. Í þessari ríkisstjórn sem nú er við völd hefur verið ákveðið að skipta upp kerfinu í félagslegt kerfi og sjúkratryggingar. Sum lyf eru greidd að fullu og það er óháð aðstæðum sjúklings, það hangir saman við hvaða sjúkdóm er um að ræða. Þetta er ákveðið í reglugerð Almannatrygginga. Lyfjagreiðslunefnd kemur þar ekki við sögu. En í Pétursnefnd er þetta í athugun og gert er ráð fyrir að byrja á lyfjunum. Þá verður horft á sjúklinginn og þann kostnað sem hann ber í heilbrigðiskerfinu sem slíku. Stefnt er að því að þeir sem bera mikinn heildarkostnað í heilbrigðiskerfinu greiði bara að ákveðnu hámarki og ekki meira. En þetta á að vera óháð hvaða sjúkdóm fólk er með og líka óháð hvaða lyf það tekur – lyfjakostnaður verður þá bara hluti af öðrum kostnaði við heilbrigðisþjónustu."

 

-Hvernig er ákvarðað hvaða lyf eru niðurgreidd?

„Það liggur fyrir í almannatryggingakerfinu. Þegar búið er að ákveða hvort greitt er í lyfi liggur nákvæmlega fyrir hvað greitt er. Þannig er kerfið í dag."

 

-Erum við með of mikið af lyfseðilsskyldum lyfjum?

„Okkar lyfjalöggjöf er mjög svipuð því sem er annars staðar á Norðurlöndum og þangað horfum við í sambandi við greiðsluþátttöku í lyfjum. Í þessu fyrirhugaða nýja kerfi er líka horft til Norðurlanda sem fyrirmyndar."

 

Lyfjagreiðslunefnd gerir verðsamanburð

-Fólk er óánægt með hvað lyf eru dýr hér, reynir lyfjagreiðslunefnd að breyta því?

„Verksvið lyfjagreiðslunefndar er m.a. að hafa verðsamanburð og við höfum nýlega birt nýjan samanburð á vefsíðu okkar. Við eigum að sinna verðeftirliti. Við berum og saman verð á lyfjum hér og annars staðar á Norðurlöndum, þ.e. heildsöluverð. En við höfum ekki áhrif á hvaða lyf eru flutt inn.

 

Hins vegar hefur núverandi heilbrigðisráðherra lagt fram nýtt frumvarp að lyfjalögum og þar er gert ráð fyrir póstverslun og reynt að liðka fyrir markaðsleyfi lyfja.

 

Sérstakt norrænt verkefni er í gangi þar sem hægt verður að sækja um markaðsleyfi samhliða, bæði fyrir Svíþjóð og Ísland. Allt miðast þetta að því að minnka hindranir, auka líkur á því að þessi markaður verði skilvirkari og fleiri hafi áhuga á að vera á honum.

Okkur vantar fleiri möguleika til að hafa verðsamkeppni virkari."

 

-Hvaða munur er á frumlyfjum og samheitalyfjum hvað verðlag snertir?

„Frumlyf eru miklu dýrari því þau eru háð einkaleyfum, samheitalyf eru ódýrari því þá er einkaleyfið fallið niður. Okkur vantar hér á markað fleiri samheitalyf. Á þessum lyfjum munar miklu erlendis og ætti að muna meiru hér á landi.

 

Nú eru einkaleyfi að fara af mjög dýrum lyfjum – eða eru farin – svo sem af prozac, losec og statinlyfjum. Þar ætti að vera hægt að spara fyrir þeim lyfjum sem enn eru varin af einkaleyfum. Það eru einnig að falla einkaleyfi af dýrum bíólógískum lyfjum, svo sem interferoni sem notað er m.a. við MS-sjúkdómi. Krabbameinslyfin eru svo óskaplega dýr en gigtarlyfin nýju er talsvert dýr, svo sem embrel. En flest þessi lyf eru S-merkt og fara í gegnum sjúkrahúsin en ekki í gegnum Tryggingastofnun. Þarna er kannski um að ræða of mikinn aðskilnað."

 

Aukning er á dýrum lyfjum

-Þið hafið ekki afskipti af svokölluðum heilsulyfjum?

„Við höfum bara afskipti af lyfseðilsskyldum lyfjum, þau eru öll skráð. Verðlagning er frjáls á lausasölulyfjum. Ákveðnar pakkningar eru lausasölulyf en aðrar pakkningar eru lyfseðilsskyldar, við ákveðum þá greiðsluþátttöku í þeim sem eru lyfseðilsskyld."

-Er mikil aukning á dýrum lyfjum?

 

„Á markaðinn hafa verið að koma ný og sértæk bíólógísk lyf, svokölluð, þau eru töluvert dýr. Mikið af þessum lyfjum eru svokölluð S-merkt lyf, þá borga sjúklingar ekki neitt í þeim. Sérfræðingar á sjúkrahúsum hafa einir leyfi til ávísa slíkum lyfjum."

-Hver eru helstu verkefnin sem liggja fyrir lyfjagreiðslunefnd núna?

 

„Við erum í sífelldri verðskoðun, berum okkur saman við Norðurlönd og höfum upplýsingarnar á vefsíðu okkar. Við erum að hefja samstarf við sænsku lyfjagreiðslunefndina til að geta notið fulltingis hennar þegar við metum greiðsluþátttökuumsóknir. Þetta er miklu stærri stofnun en okkar. Þar vinna um 30 manns, heilsuhagfræðingar og lögfræðingar. Ef við getum komist inn í þeirra feril tiltölulega snemma þá komumst við í bland við góða og vandaða vinnu sem við höfum ekki forsendur til að vinna hér. Þetta er okkur því mikilvægt.

Í Svíþjóð er verið að fást við sömu lyfin og hér – en fyrir milljónamarkað. Ef við göngum inn í svona samstarf fáum við fyrr ný lyf vegna aðgangs að vinnu sænsku nefndarinnar og mats hennar á lyfjunum.

 

Aðild að sænskum markaði myndi leiða til fjölgunar á samheitalyfjum

Í framhaldi af þessu er Lyfjastofnun í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið að vinna með sænsku lyfjastofnuninni í þá veru að tengja okkur við markaðsleyfi þeirra. Þá er líklegt að fjölgi hér lyfjum – einkum erum við þá að horfa til samheitalyfja. Þannig yrði markaðurinn stækkaður."

 

-Hefur lyfjagreiðslunefnd afskipti af lyfjum sjúkrahúsa?

„Nei, lyfjagreiðslunefnd hefur ekki afskipti af lyfjum á sjúkrahúsum, þau hafa sérlyfjanefndir. Við hér höfum aðeins með að gera lyfseðilsskyld lyf sem seld eru í apótekum."

 

-Hvað með fjölda þeirra sem fá ný lyf eins og t.d. tysabri, sem mikið er í umræðunni?

„Það mál er ekki beinlínis á okkar könnu en ég þekki það út frá heilsuhagfræðilegu sjónarmiði. Menn styðjast þar við þær heilsuhagfræðilegu greiningar og klínísku rannsóknir sem gerðar hafa verið í löndunum í kringum okkur.

 

Það eru alltaf læknarnir á sjúkrahúsunum sem verða að meta hvaða sjúklingar fá hvaða lyf. Ákveðin lyf gagnast tilteknum einstaklingum best. En það er rétt að fram komi að við Íslendingar erum að meðhöndla miklu fleiri með tysabri, þessu nýja MS-lyfi, en hlutfallslega er gert í löndunum í kringum okkur. Það var veitt leyfi fyrir að gefa þetta lyf mun fleiri sjúklingum hér en í nágrannalöndum, t.d. Danmörku."

 

-Eru gömlu og ódýrari lyfin stundum ekki alveg eins góð og þau nýju og dýru?

„Jú, þau eru það, þess vegna er mikilvægt að gera greinarmun á hvernig sjúklingahóp er verið að tala um. Fyrir stóran hóp eru t.d. eldri blóðfitulækkandi lyf, sem komin eru af einkaleyfi, mjög góð og ná tilætluðum árangri, þ.e. statinlyfin.

Það er óþarfi að nota dýr lyf ef hægt er að ná sama árangri með eldra og ódýrara lyfi. Þannig er hægt að spara og nota heldur peningana fyrir þá sjúklinga sem ekki geta notað eldri lyfin og verða að fá nýju og dýru lyfin."

 

-Er mikið sótt um að flytja hingað inn ný lyf?

„Umboðsaðilar sækja um að flytja inn lyf og mikilvægt er að Íslendingar fái sem fyrst ný lyf svo þau geti gagnast sem fyrst þeim sem á þeim þurfa að halda."

 

-Þarft þú ekki að hafa mikla yfirsýn í þessu nýja starfi þínu yfir lyfjamarkaðinn?

„Ég þarf að fylgjast vel með. Ég hef samband við kollega mína á Norðurlöndum og hef einnig tvo starfsmenn hér, auk þeirra sem sitja með mér í lyfjagreiðslunefnd. Þetta er sameiginleg vinna. En ég hef unnið í íslenskum lyfjaiðnaði lengi og þekki þetta nokkuð vel."

 

-Ef þú ættir að velja eitt lyf sem valdið hefur straumhvörfum frá því þú tókst þitt lyfjafræðipróf – hvaða lyf myndirðu þá velja?

„Hefði ég farið lengra aftur hefði ég valið pensilín, – ég vann á St. Mary’s, þar sem Fleming starfaði. En á því tímabili sem liðið hefur frá námslokum mínum þá nefni ég prozac, það er upphafið að þessum nýju geðlyfjum og því að fordómarnir minnkuðu gagnvart þunglyndi. Í kjölfar þess lyfs fylgdu líka mörg góð lyf. Þetta hefur breytt líðan og lífi margra og þessi lyf hafa líka breytt umræðunni. Það er þýðingarmikið."

 

Í hnotskurn

» Samvinna við stærri markað myndi þýða ódýrari samheitalyf hér á landi.
» Prozac-lyf hafa minnkað fordóma gagnvart þunglyndi
» Mörg eldri lyf og ódýrari. eru jafngóð fyrir suma og dýrari lyfin.

Morgunblaðið summudaginn 17. febrúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *