Aukinn kostnaður fellur á sjúklinga Landspítalans

KOSTNAÐARÞÁTTTAKA sjúklinga sem sækja þjónustu Landspítala hefur aukist undanfarin ár samhliða ríkari áherslu spítalans á göngu- og dagdeildaþjónustu. Jukust sértekjur spítalans um 15% á síðasta ári og er aukin starfsemi á göngudeildum og rannsóknardeildum helsta ástæða þess.

 

Þannig voru þjónustutekjur spítalans, þ.e. tekjur af heilbrigðisþjónustu til einstaklinga og annarra heilbrigðisstofnana, á síðasta ári 1,9 milljarðar króna samkvæmt bráðabirgðauppgjöri en voru tæplega 1,7 milljarðar árið 2006 og 1,6 milljaðar árið 2005. Eru þá meðtaldar tekjur vegna ósjúkratryggðra sjúklinga og þjónustu, t.d. rannsókna, fyrir önnur sjúkrahús og heilsugæslustöðvar. Tekjur af komugjöldum sjúklinga jukust um tæp 10% milli áranna 2004 og 2006. En frá árinu 2000 hefur umfang dag- og göngudeilda aukist um rúmlega 25%. Á sama tíma hefur komum á bráða- og slysadeildir spítalans einnig fjölgað umtalsvert.

 

Gjaldtakan samræmd

Unnið hefur verið að því að auka samræmi í gjaldtöku sjúklinga og er upptaka gjaldtöku á göngudeild gigtardeildar hluti af því. Í Morgunblaðinu á föstudag kom fram að gigtarsjúklingar sem koma á göngudeild til viðtals, rannsókna og lyfjagjafar, hafi hingað til ekki þurft að borga fyrir þjónustuna, en frá 1. mars nk. verður breyting þar á. Í bréfi sem gigtarsjúklingum hefur verið sent vegna málsins kemur m.a. fram að þetta sé gert til samræmis við hliðstæða þjónustu á öðrum deildum LSH og reglugerð sem sett var í heilbrigðisráðuneytinu í desember sl.

 

Þak sett á greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustuna í heild

Heilbrigðisráðherra skipaði í lok nóvember sl. nefnd sem hefur það hlutverk að gera tillögur að réttlátari, einfaldari og gagnsærri þátttöku einstaklinga í kostnaði vegna lyfja og annarrar heilbrigðisþjónustu. Pétur H. Blöndal alþingsimaður er formaður nefndarinnar og Ásta R. Jóhannesdóttir er varaformaður. Að sögn Rúnu Hauksdóttur, sem á sæti í starfshópi á vegum nefndarinnar, gengur vinnan vel. Ákveðið var að skoða fyrst kostnað fólks vegna lyfja og hefur sá kostnaður þegar verið greindur og verður kynntur á fundi nefndarinnar í næstu viku. Í kjölfarið verða unnar tillögur að breytingum. „Við erum líka byrjuð að skoða allt sjúkratryggingakerfið og hvað sjúklingar eru að borga fyrir heilbrigðisþjónustu á Íslandi," segir Rúna. „Hugmyndin er sú að verja þá sem greiða mjög mikið vegna heilbrigðisþjónustu og að setja ákveðið þak á þann kostnað, hvort sem hann hlýst af lyfjakaupum eða öðrum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustunnar."

Tillögur nefndarinnar munu miða að því að jafna kostnað sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu, þær eiga hvorki að vera kostnaðaraukandi fyrir sjúklinga né ríkið. „Við erum að fara í mjög viðamikla gagnasöfnun til að gera okkur grein fyrir því hvað fólk er að borga í dag. Slíkar upplýsingar hafa hingað til ekki legið fyrir," segir Rúna.

 

Í hnotskurn

» Fyrir komu á göngudeildir og slysa- og bráðamóttökur ber Landspítalanum að innheimta kostnaðarhlut sjúkratryggðs sjúklings skv. reglugerð.
» Upphæðirnar sem sjúklingar greiða eru mismunandi eftir því hvað gert er. Þó er fast gjald fyrir komu á slysadeild og fyrir rannsóknir. Fyrir innlögn á sjúkrahúsið er ekkert innheimt.
» Hins vegar geta sjúklingar komið á göngudeild í rannsóknir og skoðun vegna undirbúnings fyrir innlögn og greiða þá í samræmi við ofannefnda reglugerð. Þeir koma svo daginn eftir eða nokkrum dögum síðar og eru þá lagðir inn.

Morgunblaðið 24. febrúar 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *