
AUKA þarf kostnaðarskilvirkni í heilbrigðiskerfinu. Þetta er mat sérfræðinga Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, sem fram kom í skýrslu stofnunarinnar um ástand og horfur í íslenska hagkerfinu. Skýrslan var kynnt í fyrradag.
Í henni segir að þótt fjármál íslenska ríkisins séu í betri farvegi en víða annars staðar sé útgjaldaþrýstingur enn mikill á vissum sviðum, sérstaklega í heilbrigðiskerfinu og bendir það að mati OECD til þess að þar megi vinna að því að ná rekstrarafgangi. Heilbrigðisútgjöld á hvern íbúa séu orðin meiri en meðaltal OECD-ríkja og vöxturinn er meiri en hagvöxtur á hvern íbúa hér á landi. „Þótt fjölmargir óvissuþættir umleiki langtímaspár benda þær til þess – í kjölfar hækkandi meðalaldurs og heilbrigðiskostnaðarþrýstings – að heilbrigðisútgjöld hins opinbera gætu orðið 15% af vergri landsframleiðslu árið 2050 ef ekki er gripið til aðhaldsaðgerða," segir í skýrslunni. Því þarf að mati OECD að auka hagræði í heilbrigðiskerfinu án þess þó að draga úr þjónustu og hinu öfundsverða heilsufari Íslendinga.
Stofnunin segir fjölmargar leiðir vera færar til þess að auka útgjaldaskilvirkni í heilbrigðisgeiranum. Fjarlægja þurfi tálma í vegi einkaframkvæmdar, sem aðeins er fjórðungur af heilbrigðiskerfinu, og opna kerfið fyrir samkeppni. Mikilvægt sé hins vegar að hið opinbera búi yfir nægri sérþekkingu til þess að gera samninga við hæfi og fylgjast með þróun mála. Þá þurfi að forðast að fjölgun valkosta örvi eftirspurn eftir heilbrigðsþjónustu um of en jafnframt að tryggja aukna kostnaðarþátttöku gegnum endurgreiðslukerfi lyfja. Mikilvægt er að vinna kostnaðar- og ábatagreiningu á heilbrigðiskerfinu og forgangsraða í kjölfar þess að mati OECD.
Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra sagðist í samtali við Morgunblaðið taka ábendingar OECD mjög alvarlega og sagði hann þær verða nýttar. „Þetta er í anda þess sem ríkisstjórnin hefur lagt upp með og það er mjög gott að fá staðfestingu á því frá jafn- virtri alþjóðlegri stofnun og OECD er. Þetta er árétting á því sem við vissum og því sem við höfum lagt upp með," sagði Guðlaugur.
Hann sagði ráðuneytið hafa verið að skoða hvernig þessum málum hefði verið sinnt í öðrum löndum sem við berum okkur saman við. „Við höfum verið að skoða hvað hefur gengið vel þar og hvað við getum lært af þeim og ég hef sett mér það markmið – og unnið að því – að vinna mjög náið með hinum Norðurlöndunum. Ég hef tekið upp ýmis mál á fundum með kollegum mínum, t.d. um sameiginlegan norrænan lyfjamarkað og heilsumarkað. Við höfum nú þegar hafið verkefni í samstarfi við Svía sem er fyrsta skrefið að sameiginlegum norrænum lyfjamarkaði. Ég hef lagt mikla vinnu í þetta, heimsótt ráðherra í Svíþjóð og Danmörku með það að markmiði að efla þessa samvinnu til að geta lært af þessum þjóðum – og þeir af okkur – og á sama hátt að vinna að því að opna þennan markað og auka samkeppni á sviði lyfjamála," sagði Guðlaugur.
Morgunblaði laugardaginn 1. mars 2008