Lífshlaupið

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Eftir Guðlaug Þór Þórðarson og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur: "…mikilvægast er að finna leiðir fyrir alla hópa þjóðfélagsins, óháð aldri, búsetu, fjárhag eða öðrum þáttum að stunda íþróttir og hreyfingu með einum eða öðrum hætti sér til heilsubótar."

 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Fátt er dýrmætara í lífinu en góð heilsa, undirstaða hamingju og velfarnaðar. Heilsa og heilbrigður lífsstíll er upplifun sem flestir vilja búa við. Efling heilsu er mikilvæg forsenda velferðar og vellíðanar hverjum einstaklingi á sama hátt og sameiginleg heilsa okkar sem þjóðar, lýðheilsa, er forsenda vellíðanar, þroska og framfara. Stefna ríkisstjórnarinnar er að veita heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða. Sú stefna tekur ekki hvað síst mið af lýðheilsu. Að á Íslandi verði lögð stóraukin áhersla á að stuðla að heilbrigðari lífsháttum. Brýnt er að skapa þjóðfélag þar sem fólk á auðvelt með að taka heilsusamlegar ákvarðanir. Í þessum anda er nú verið að vinna að mótun heilsustefnu (public health policy) á vegum heilbrigðisráðuneytisins.

 

Heilsa og heilbrigði eru hvoru tveggja verkefni einstaklinga en á sama tíma hópa einstaklinga s.s. þjóða. Því liggja tækifæri í að rækta samtakamátt heildarinnar og þar með lýðheilsu í verkefni eins og því sem við ráðherrar heilbrigðis- og menntamála hefjum formlega í Álftamýrarskóla í dag. Enginn getur bætt heilsu alfarið á eigin ábyrgð, til þarf að koma þjóðfélag sem auðveldar borgurum sínum ákvarðanir sem leiða til bættrar heilsu og aukins heilbrigðis.

 

Guðlaugur Þór Þórðarson Hreyfing er mikilvægur þáttur í eflingu heilbrigðis. Við þurfum ekki að fara nema 10 ár aftur í tímann til þess að sjá að hreyfing var mun stærri þáttur af hinu daglega lífi okkar en hún er í dag. Tækninni hefur fleygt fram og nú eru til tölvur og bílar á nánast hverju einasta heimili, sem er af hinu góða. Oft hófu unglingar sín fyrstu spor á vinnumarkaðnum sem sendlar á hjóli og þeyttust út um allan bæ með bréf og póst. Þessi vinna er nú framkvæmd að mestu í gegnum tölvur. Að sjálfsögðu fögnum við þeim framförum sem orðið hafa á sviði tækninnar, en við verðum líka að átta okkur á þeim breytingum sem fylgt hafa í kjölfarið og snerta lífsstíl okkar og hafa mikil áhrif á lýðheilsu. Það verður ekki litið fram hjá því að breyttir lifnaðarhættir okkar hafa sumpart orðið á kostnað hreyfingarinnar.

 

Stöðugt koma fram fleiri rannsóknir sem staðfesta að regluleg hreyfing er lykilþáttur fyrir heilsu og vellíðan fólks á öllum aldri. Fólk sem hreyfir sig reglulega minnkar ekki aðeins líkurnar á ýmsum langvinnum sjúkdómum, s.s. hjarta- og æðasjúkdómum, sumum tegundum af krabbameinum, sykursýki af tegund tvö, stoðkerfisvandamálum og hvers konar geðröskunum, heldur eykur hreyfing umfram allt líkurnar á því að einstaklingar búi lengur við sjálfstæði, heilbrigði og hamingju í lífi sínu. Heilbrigðri þjóð vegnar betur og mannauður eflist og ekki er verra ef kostnaður heilbrigðiskerfis takmarkast samhliða því.

 

Þrátt fyrir að mikilvægi hreyfingar fyrir heilsu og vellíðan sé vel þekkt eru margir sem ná ekki að hreyfa sig í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu. Lýðheilsustöð mælir með að fullorðnir hreyfi sig í minnst 30 mínútur á dag og börn og unglingar í minnst 60 mínútur á dag.

 

Með þetta að leiðarljósi ætlar Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands ásamt heilbrigðisráðuneyti, menntamálaráðuneyti og Lýðheilsustöð að hrinda af stað verkefninu Lífshlaupinu (www.lifshlaupid.is).

 

Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, skipaði í byrjun ársins 2005 starfshóp til þess að fara yfir íþróttamál á Íslandi með það að markmiði að móta íþróttastefnu. Formaður starfshópsins var Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi heilbrigðisráðherra. Starfshópurinn setti fram hugmyndir um mótun stefnu og tillögur að aðgerðum í skýrslunni, Íþróttavæðum Ísland, aukin þátttaka, breyttur lífsstíll. Meginniðurstöður skýrslunnar voru að mikilvægast er að finna leiðir fyrir alla hópa þjóðfélagsins, óháð aldri, búsetu, fjárhag eða öðrum þáttum, að stunda íþróttir og hreyfingu með einum eða öðrum hætti sér til heilsubótar. Skýrslan er nú nýtt í stefnumörkunarferli heilsustefnu innan heilbrigðisráðuneytisins. Vinna starfshópsins leiddi af sér uppsetningu vefs sem ÍSÍ var afhentur haustið 2006. Síðan þá hefur almenningsíþróttasvið ÍSÍ, ásamt samstarfsaðilum, mótað verkefnið Lífshlaupið með það að markmiði að hvetja alla landsmenn til daglegrar hreyfingar.

 

Lífshlaupið höfðar til allra aldurshópa. Landsmenn eru hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er í frítíma, við heimilisstörfin, í vinnu, í skóla og við val á ferðamáta. Inn á vef Lífshlaupsins, www.lifshlaupid.is er hægt að velja um þrjár leiðir; vinnustaðakeppni fyrir 16 ára og eldri, hvatningarleik fyrir 15 ára og yngri og einstaklingskeppni þar sem þátttakendur geta skráð niður sína daglegu hreyfingu allt árið. Einnig er hægt að fylgjast með hvernig sveitarfélög standa sig á sérstöku korti á vefnum sem gefur upp heildarfjölda þátttakenda og liða í hverju sveitarfélagi. Þetta gerir sveitarfélögum og vinnustöðum auðvelt fyrir að „keppa" hvert við annað.

 

Kæru landsmenn, við berum saman ábyrgð á heilsu okkar. Veljum þá hreyfingu sem okkur þykir skemmtileg, möguleikarnir eru margir. Það þarf ekki að kosta miklu til að fara út að ganga, í sund og leika okkur saman. Höfum hreyfingu inni á okkar daglegu stundarskrá. Tökum þátt í Lífshlaupinu og eflum líkama og sál með því að hreyfa okkur daglega.

 

Þín heilsa – Þín skemmtun – Ávinningur okkar allra.

Guðlaugur Þór er heilbrigðisráðherra. Þorgerður Katrín er menntamálaráðherra.

Morgunblaðið þriðjudaginn 4. mars 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *