Í sjúkrabíl 701 á slysadeild

Línurit Ólafur skoðar hér hjartalínurit, hægt er að taka nokkuð nákvæm rit í sjúkrabílnum og senda þau svo til sérfræðinga á spítalanum svo þeir geti undirbúið komu sjúklings vandlega.

Á bráða- og slysadeild Landspítala í Fossvogi liggur stöðugur straumur fólks, daga og nætur. Margt af því er alvarlega veikt eða slasað. Líflínan þangað er sjúkraflutningar. Farið var í þrjú útköll með sjúkrabíl 701, það síðasta með sjúkling á slysadeild LHS í Fossvogi. Hér er meðferð hans fylgt eftir í máli og myndum. Rætt var við menn úr áhöfn umrædds sjúkrabíls og starfsfólk deildarinnar sem sinnti Ýri Geirsdóttur í veikindum hennar.

 

Línurit Ólafur skoðar hér hjartalínurit, hægt er að taka nokkuð nákvæm rit í sjúkrabílnum og senda þau svo til sérfræðinga á spítalanum svo þeir geti undirbúið komu sjúklings vandlega. Guð gefi að enginn slasist eða veikist í dag – en ef það gerist þá má það gerast á meðan ég er á vakt." Svo mælir ungur sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður, mitt á milli gríns og alvöru, þegar ég sit í kaffistofu í húsakynnum Björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð, þar sem auk Slökkviliðs og Neyðarlínu hafa aðsetur, Landhelgisgæslan, Fjarskiptamiðstöð lögreglu, Tetra og Landsbjörg.

 

Ég er komin í galla sjúkraflutningamanna, merktan starfsþjálfun og bíð þess ásamt áhöfn sjúkrabíls 701 að næsta útkall komi. Sá bíll var áður mannaður lækni en nú eru í áhöfn hans jafnan bráðatæknir og þrautþjálfaður sjúkraflutningamaður.

 

Þeir sem ég fer með í fyrsta útkallið heita Ólafur Sigurþórsson og Gunnar Leó Þórsteinsson. Sá fyrrnefndi hóf störf 1996 og er bráðatæknir en Gunnar, sem er neyðarflutningamaður, hóf störf á þessum vettvangi árið 2000.

 

Fyrri áhöfn Þetta eru f.v. Ólafur Sigurþórsson bráðatæknir og Gunnar Leó Þórsteinsson neyðarflutningamaður. Með þeim fór blaðamaður í tvö útköll á sjúkrabíl 701 sem er neyðarbíll. Ég er spennt og svolítið kvíðin. Hef þegar hitt mann nr. 70, sem heldur utan um heildardæmið, hann er stoðdeildarmaður sem sér um að samræma aðstoð og búnað og forgangsraða. Einnig er ég búin að fara um húsið í fylgd með Brynjari Friðrikssyni. Það er mikið að sjá á þessum stað, merkileg tól og tæki sem eru til staðar fyrir íbúa höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar þegar mest á ríður.

 

Ég hafði mætt í Slökkvistöð höfuðborgarsvæðisins síðla dags. Það fyrsta sem fyrir augu bar voru tveir sjúkraflutningamenn að bera á milli sín kassa með g-mjólk og banönum.

 

„Er þetta fæði sjúkraflutningamanna?" segi ég.

„Þetta er alltaf til á fjórum stöðvum sjúkra- og slökkviliðs, við erum staðsettir á Tunguhálsi og erum að sækja „fóður"," svarar annar glaðbeittur.

 

Hvað ertu há?

Ég fer inn og gef mig fram.

„Hvað ertu há?" spyr dökkhærður maður, Árni Odsson, eftir að hafa kynnt sig og spjallað svolitla stund um tilgang veru minnar þarna.

 

„Ég er 164 sentimetrar," svara ég. Hann virðir mig fyrir sér fagmannssjónum og kemur svo með galla sem smellpassar mér og hjálpar mér að festa á hann beltið.

 

Og nú er bara að bíða. Ég er komin með síma í brjóstvasann sem pípir um leið og kallið kemur. Og ekki líður á löngu þar til Ólafur, Gunnar og ég erum lögð af stað. Eitthvað er um að vera – viðbúnaðarstig á Reykjavíkurflugvelli. En bílnum er fljótlega snúið á heimaslóðir. Hans var ekki þörf.

 

Brjóstverkur og sjálfsvígstilraun

Næst kemur útkall vegna sjúklings með brjóstverki. Bíllinn brunar af stað með sírenur og blá ljós og mig innanborðs á stól við hliðina á sjúkrabörunum. Á eftir okkur kemur Ómar ljósmyndari á bíl sínum. Hann ætlar að fylgja okkur dyggilega eftir. Ég heyri í talstöðinni að næsti sjúkrabíll er að fara út vegna sjálfsvígstilraunar og prísa mig sæla að vera heldur á leið til sjúklings með brjóstverki.

 

Bíllinn brunar með látum vestur í bæ. Þar bíður sjúklingur í rúmi sínu og ber sig furðanlega vel þrátt fyrir mikil óþægindi fyrir hjarta. Þeir Ólafur og Gunnar hlynna að sjúklingnum fimum höndum og athuga hann og skrá upplýsingar. Mæla blóðþrýsting og súrefnismettun, taka hjartalínurit, spurt er um ofnæmi og hvaða lyf sjúklingur taki. Ákveðið er eftir samtal við sérfræðing að fara með sjúklinginn á bráðavakt Landspítala við Hringbraut.

 

Í bílnum er sett upp nál hjá sjúklingnum og rætt við hann um heilsufarið. Ég virði fyrir mér öll tækin og fæ að vita síðar að í bílnum er hjartastuðtæki og súrefni auk margra annarra sjúkragagna sem neyðarþjónusta þarfnast. Lyf eru geymd í viðeigandi hirslu sem fylgir sjúkraflutningamönnum.

 

Rólegir og fumlausir menn

Þeir Ólafur og Gunnar hafa marga fjöruna sopið í þessu starfi. Þeir eru líka skráðir á dælubíl og hafa komið að mörgum harmleiknum í formi slysa og veikinda.

 

En þeir eru mjög rólegir og fumlausir í starfi sínu.

Sjúklingurinn liggur bakvísandi í bílnum og ég sný eins og er orðið ómótt.

„Það kemur fyrir að sjúklingar verða hálfbílveikir," segir Gunnar þegar ég segi frá líðan minni eftir að þeir hafa fylgt sjúklingnum inn og gert skýrslu.

 

Næst liggur leið okkar upp í Fossvog þar sem á að fylla upp í nauðsynlegar birgðir af sjúkragögnum í bílinn.

Eftir það erum við klár í næsta útkall.

 

Yfirlið á hóteli

Það lætur ekki á sér standa. Nú liggur leiðin á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur. Þar hefur liðið yfir mann. Þegar við komum á svæðið eru tveir lögreglumenn þar fyrir og fleiri sjúkraflutningamenn. Maðurinn er kominn til meðvitundar en blóðþrýstingur hans er hræðilega lágur 74/48.

 

Yfirlið Á hóteli í miðbæ féll ungur maður í yfirlið yfir kvöldverð með dömu. Hann neitaði frekari rannsókn. „Við vorum bara búin með forréttinn, ég vil klára dæmið,“ sagði hann ákveðinn. Hann fær sér vatnsopa meðan hlynnt er að honum og við hlið hans er falleg stúlka sem hann hefur boðið út að borða þetta kvöld. Þau voru bara búin með forréttinn og varla er hann kominn með sæmilega meðvitund þegar hann vill óður og uppvægur komast aftur inn að borða. „Ég vil klára dæmið – við vorum bara búin með forréttinn," segir hann og neitar þverlega að fara í frekari rannsóknir þetta kvöld. Fölur á hörund fer hann aftur inn í salinn með stúlkunni sem hann á stefnumótið við. Þau ætla að ljúka við kvöldverðinn og hún lofar að láta vita ef maðurinn verður aftur lasinn.

 

Ólafur, Gunnar og ég göngum út í kalt kvöldloftið. Á upplýstum götum er fullt af fólki sem er á leiðinni út að skemmta sér. Veikindi og slys eru því greinilega ekki ofarlega í huga.

Þegar komið er upp í höfuðstöðvar er komið að vaktaskiptum.

 

Á kaffistofunni

Áhöfn tvö F.v. Sigurjón Valmundarson og Sigurbjörn Guðmundsson sem tóku við sjúkrabíl 701 um kl. 8 og sóttu Ýri Geirsdóttur á heimili hennar og fluttu hana á slysa- og bráðadeild. Þeir Sigurjón Valmundarson bráðatæknir og Sigurbjörn Guðmundsson neyðarflutningarmaður taka við sjúkrabíl 701 og ég fylgi með „í kaupunum". Þetta er eini bíllinn þar sem áhöfnin sinnir bara neyðarútköllum.

 

Það er rólegt um stund og við fáum okkur sæti inni á kaffistofu og ég borða samloku og hlusta á starfsmennina spjalla. Þeir hafa allir að baki mikla starfsþjálfun og langt nám. Bráðatæknar taka hjartalínurit, það hef ég séð þegar, þeir taka líka 12 leiðslu hjartarit og senda upplýsingar til sérfræðinga á sjúkrahúsi sem þannig eru búnir undir komu viðkomandi sjúklings. Þeir mega gefa lyf með leyfi spítalans. Allt er hljóðritað og tímasett sem fram fer. Það eru 15 bráðatæknar að störfum við sjúkraflutninga og slökkviliðsstörf og fleiri eru úti að læra. Ólafur lærði sitt fag t.d. í Pittsburg í Bandaríkjunum og sinnti þar útköllum af öllum tegundum. Tveir bráðatæknar hafa þjálfað með sérsveit lögreglunnar og sinna þá eingöngu sjúkraþáttum. Sumir hafa líka sinnt friðargæslustörfum á eigin vegum fyrir „milligöngu" Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Fram kemur í samtali starfsmannanna að stundum eru teknar myndir á vettvangi, oftast þegar bílar skemmast.

 

Ég fæ að vita að vissir menn sinna köfun í sjó og vötnum og eru með atvinnuréttindi sem slíkir. Ég hef þegar séð útbúnað þeirra og skoðað dælubílinn sem er aðalbíll slökkviliðsins.

 

„Dagurinn byrjar með því að fara yfir búnað, líta í bækur og halda sér við, sjá um að útkallsbúnaður sé í lagi og allt sé á sínum stað, bílar hreinir," segir einn.

 

Ég hef nú þegar áttað mig á að þessir glensfullu menn sinna miklu álagsstarfi. „En vinnuálagið er ójafnt, aldrei hægt að segja fyrir um hvernig dagurinn verður," segir annar.

 

Þyrluútkall í gangi!

„Ég var t.d. einn daginn að koma á vakt með kassa með öllum göllunum mínum og öðru dóti og ætlaði að fara að koma mér fyrir. Þá var mér sagt að það væri þyrluútkall í gangi, þyrfti að fara norður á land. Ég skellti mér í gallann og tekið var til dótið sem með átti að fara í járnkistu. Þegar við vorum komnir næstum alla leið kom í ljós að ekki þurfti á okkur að halda til að klippa slasaðan mann út úr bíl. Við vorum því settir út með járnkisturnar okkar en sjúklingurinn settur inn í þyrluna í staðinn og flogið með hann á spítala í Reykjavík. Sendur var bíll eftir okkur. Þegar við vorum komnir niður í Borgarfjörð pípti síminn. Stórútkall var í miðbæ Reykjavíkur – bruninn í Lækjargötu. Ég snaraði mér aftur í gallann og niður á Lækjartorg og þar var barist með öllu sem til var við eldinn. Þetta var mjög viðburðaríkur dagur, " segir Sverrir Björn Björnsson.

 

Í annað skipti voru menn að „gæsa" félaga í rólegheitum í höfuðstöðvunum þegar skyndilega kom kall um að það vantaði reykkafara. „Það var eldur í skipi og ég í eldgallann og tók með mér tvo menn héðan og tvo úti á flugvelli. Það var eldur í Akurey, þetta var 170 mílna flug, skipið var einhvers staðar út af Vestfjörðum. Við stilltum upp á leiðinni hvernig við ætluðum að hafa björgunarstörfin, ég þekki togara og einn hafði komið um borð í Akurey. Við fengum svo teikningu þegar við komum um borð. Eldurinn hafði komið upp í rými þar sem var ljósabekkur. Tveir menn dóu í þessum bruna. Búið var að vinna mikið slökkvistarf af skipverjum en við slökktum það sem eftir var. Við hlúðum að áhöfninni andlega og gerðum það sem við gátum fyrir þá. Þetta var svona 27 tíma törn," segir Sverrir.

 

Síminn pípir – nýtt útkall

En nú pípir síminn og ég skelli kaffibollanum á borðið og hleyp af stað. Þeir Sveinbjörn og Sigurjón eru þegar mættir í bílinn og það er ekki lengi gert að spenna á sig beltið og renna af stað með sírenur og blá ljós.

 

Ferðinni er heitið í sambýlishús í austurbæ þar sem sjúklingur er kvalinn í maga og mikið lasinn samkvæmt upplýsingum talstöðvar.

Við stökkvum út úr bílnum og upp í íbúðina. Þar er ung kona sem ber sig mjög aumlega, móðir hennar og unnusti sem stumra yfir henni. Augljóslega er þarna myndarlegt heimili ungra hjóna með ung börn.

 

Þeir Sveinbjörn og Sigurjón mæla blóðþrýsting, gera skyndiathugun og svo hringja þeir á slysa- og bráðadeild í Fossvogi og þar er ákveðið að sjúklingurinn skuli koma inn til rannsóknar.

 

Á slysa- og bráðadeild

Hlustun Páll Svavar Pálsson læknir hlustar Ýri Geirsdóttur. Hún var með sérlega ljótan hósta og greindist með berkjubólgu sem afleiðingu af hita og slæmri inflúensu. Varlega koma þeir stúlkunni fyrir á sjúkrabörunum og bera hana út í bíl. Móðir hennar kemur á eftir í eigin bíl. Bráðatæknir setur upp nál hjá sjúklingnum á leiðinni upp á slysa- og bráðadeild. Sjúkraflutningamenn taka sjúklinginn úr börunum og koma henni fyrir í rúmi í skoðunarherbergi. Móðir stúlkunnar er komin á staðinn. Hjúkrunarfræðingur og hjúkrunarnemi taka stúlkuna úr að ofan og setja hana í sjúkratreyju. Undirbúa á hana undir frekari rannsóknir. Mamma hennar lætur hana fá GSM-síma, kveðst ætla heim þar sem hún er sjálf með lítil börn en segist hafa samband fljótlega.

 

Ég kveð sjúkraflutningamennina, sem ég hef fylgt um kvöldið, með nokkrum söknuði en sný mér svo að því að fylgjast með meðferðinni sem sjúklingurinn okkar fær.

 

Blóðþrýstingur er mældur og settur upp vökvi – allt er undir öflugu eftirliti hér.

 

„Hún gæti verið orðin þurr, sem við köllum, eftir viku veikindi," segir hjúkrunarfræðingurinn sem heitir Bára Benediktsdóttir. „Hún hefur verið með hita og flensu og fékk svo lyf sem hún þoldi illa."

 

Lungnamyndataka og spjall

Skýrslan Sigurjón bráðatæknir afhendir Báru hjúkrunarfræðingi skýrslu sem hann gerði í sjúkrabíl 701 um ástand og líðan Ýrar Geirsdóttur og hvað fyrir hana hafði verið gert. Rétt á eftir er sjúklingnum ekið fram. Það á að fara með stúlkuna í lungnamyndatöku. Ég tölti á eftir og næ tali af henni þegar búið er að röntgenmynda og beðið er eftir úrskurði læknis um niðurstöður.

 

„Ég er búin að vera með hita og flensu og svo fékk ég svo hræðilegar kvalir í magann þegar ég hafði tekið lyf sem mér var ávísað vegna sífellds hósta," segir Ýrr Geirsdóttir.

 

Hún kveðst vera með penisillínofnæmi.

„Ég fékk heiftarleg viðbrögð fyrir nokkrum árum þegar mér var gefið penisillín, útbrot um allan líkamann, svima, uppköst og mikinn kláða. Ég hafði verið með steratöflur jafnhliða en ofnæmiseinkennin komu fram þegar ég hætti að taka sterana."

 

Hún kveðst fædd 1979 og hafa verið heilsugóð yfirleitt.

 

„Ég tók fyrstu töfluna í gærkvöldi, svo í morgun og þá fór ég að verða mikið lasin, flökurt og með svima og loks uppköst – þá hringdi ég í mömmu og hún dreif í að kalla á sjúkrabíl."

 

Algeng meðferð

Skýrslan Sigurjón bráðatæknir afhendir Báru hjúkrunarfræðingi skýrslu sem hann gerði í sjúkrabíl 701 um ástand og líðan Ýrar Geirsdóttur og hvað fyrir hana hafði verið gert. Þegar niður kemur tala ég aftur við Báru hjúkrunarfræðing og spyr hana hvort meðferðin sem Ýrr fékk sé dæmigerð fyrir svona tilvik?

 

„Já, þetta er mjög algeng afleiðing af inflúensu, fólk verður þurrt vegna hitans, fær ljótan hósta. Henni er gefinn vökvi til að vega á móti þurrkinum, teknar blóðprufur og röntgenmyndir af lungum. Ég býst við að hún verði ekki lengi hér. En maður veit aldrei, hún lítur þó sannarlega miklu betur út strax núna en við komuna hingað. Þetta lítur ágætlega út."

 

Móðir sjúklings, Hlíf Guðmundsdóttir er aftur komin til dóttur sinnar. Hún kveður hana ekki hafa fengið penisillínofnæmi fyrr en á fullorðinsárum, hafa þolað vel lyfið sem barn og enginn í kringum hana sé með slíkt ofnæmi. „Ýrr var hraustur krakki, en ef við veikjumst þá veikjumst við vel," bætir hún við og brosir.

Við kveðjum þær mæðgur þar sem þær brosa blítt til ljósmyndarans og sannarlega er Ýrr orðin til muna hressari en þegar hún lá í sjúkrabörunum í sjúkrabíl 701.

 

Hlustun Páll Svavar Pálsson læknir hlustar Ýri Geirsdóttur. Hún var með sérlega ljótan hósta og greindist með berkjubólgu sem afleiðingu af hita og slæmri inflúensu. Ég fæ fylgd Páls Svavars Pálssonar læknis um húsakynni slysa- og bráðadeildar í Fossvogi. Hann sýnir mér stofu þar sem alvarlega veikt fólk er rannsakað, þar eru alls kyns tæki til að veita sem öruggasta athugun og meðferð, lyf og annað er við höndina.

 

Hann segir Ýri vera með berkjubólgu sem afleiðingu af hita og flensu sem fór versnandi. Fékk sýklalyf sem sló á einkenni en olli kviðverkjum þar sem hún þoldi illa lyfið Erymax. Hann kveður Ýri ekki vera í neinni hættu, hún myndi fá nýtt lyf og verða send heim fljótlega ef ekkert óvænt kæmi út úr blóðprufunum."

 

Við kíkjum inn í stofur sem á leið okkar verða, sjáum stofu þar sem háls- nef- og eyrnaskoðun fer fram, svo og augnskoðun. Verið er að setja gips á handlegg manns í stórri stofu, „gipsherberginu", og loks enda ég frammi á gangi þar sem ég kveð móttökustúlkuna með virktum og þakka fyrir að fá að fylgjast með störfum alls þessa ágæta starfsfólks sem ég hef þarna hitt og talað við. Ég hef sannfrétt að búið er að kaupa bíl til að flytja lækni á neyðarstað, þetta kallar Már Kristjánsson, sviðsstjóri lækninga á Landspítala, stefnumótabifreið og á þetta fyrirkomulag að koma í stað mönnunar lækna á sjúkrabíl 701. Á slysa- og bráðadeild Landspítala er augljóslega unnið mikið, óeigingjarnt og gott starf sem sannarlega er okkur hinum lífsnauðsynlegt.

Morgunblaðið sunnudaginn 16. mars 2008

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *