Bæklingurinn Hjartasjúkdómar – varnir – lækning – endurhæfing

Gestur Þorgeirsson

Landssamtök hjartasjúklinga, sem nú heita Hjartaheill, voru stofnuð þann 8. október 1983. Á tíu ára afmæli sínu höfðu samtökin frumkvæði að því að þessi bæklingur ,,Hjartasjúkdómar, varnir – lækning – endurhæfing" varð til.

 

Gestur ÞorgeirssonÍ honum er í stuttu máli fjallað um áhættuþætti æðakölkunar, helstu hjartasjúkdóma, einkenni þeirra, algengar rannsóknir og meðferð. Þá er lögð áhersla á þá möguleika sem felast í hjartaendurhæfingu. Í viðtölum við sjúklinga kemur m.a. fram hve mikilvæg hún er fyrir andlega og líkamlega vellíðan. Landssamtök hjartasjúklinga – Hjartaheill hafa oft á ferli sínum lagt lið málefnum sem horft hafa til framfara og að þessu sinni gefa þau út þetta fræðsluhefti í 5. útgáfu.

 

 

Eins og áður hefur víða verið leitað fanga um efni. Við undirbúning þessarar útgáfu hefur verið lögð megináhersla á nýjungar í hjartalyflækningum og hjartaskurðlækningum. Anna G. Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur hefur haft meginumsjón með endurskoðun og uppsetningu efnis.

 

Nýjum tilfellum kransæðasjúkdóms hefur farið fækkandi á Íslandi síðustu tvo áratugina. Vafalítið má að miklu leyti rekja það til þess að mun færri reykja nú en áður og jafnframt hefur bætt meðferð við öðrum helstu áhættuþáttunum svo sem við hækkaðri blóðfitu og háþrýstingi átt sinn þátt í því. Þá hafa framfarir í meðferð bæði í hjartalyf- og hjartaskurðlækningum bætt horfur hjartasjúklinga verulega. Nauðsynlegt er þó að halda vöku sinni því enn er kransæðasjúkdómurinn mikill skaðvaldur á Íslandi og svo er um ýmsa aðra hjartasjúkdóma. Þess er vænst að þessi fræðslubæklingur verði hjartasjúklingum hér eftir sem hingað til aðgengileg lesning og gagnleg.

 

Janúar 2008

Gestur Þorgeirsson, læknir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *