Algengustu einkenni hjarta- og æðasjúkdóma eru brjóstverkur, mæði, svimi/yfirlið, hjartsláttarónot, þreyta og verkir í ganglimum. Enda þótt ofangreind einkenni séu algeng einkenni hjartasjúkdóma geta þau einnig stafað af öðrum sjúkdómum sem stundum veldur erfiðleikum við sjúkdómsgreiningu.
Þannig geta brjóstverkir orsakast af festumeini í brjóstvegg (millirifjagigt), sjúkdómum í vélinda og bólgu í gollurhúsi eða brjósthimnu. Það er nokkuð dæmigert fyrir hjartasjúkdóma að einkenni, svo sem brjóstverkur og mæði framkallast við áreynslu þótt það sé ekki einhlítt.