Kransæðamyndataka er gerð þannig að örmjó slanga er þrædd inn í náraslagæð og áfram upp til hjartans (vinstri þræðing). Með því að dæla skuggaefni í gegnum slönguna má ná fram röntgenkvikmynd af kransæðum og vinstri slegli.
Ef um þrengsli er að ræða í kransæðum sjást þau yfirleitt mjög vel og unnt er að meta hversu mikil þau eru. Ef kransæðavíkkun er nauðsynleg er reynt að gera hana strax og kransæðamyndatakan er gerð þannig að önnur innlögn á sjúkrahús verður óþörf.
Þegar þrætt er frá bláæð er farið um hægri hjartahólf og út í lungnaslagæðina. Það kallast hægri þræðing og með henni er metinn þrýstingur í blóðrásinni, súrefnismettun og einnig er unnt að mæla hversu miklu blóði hjartað dælir á hverri mínútu.