Hjartaverkur/hjartakveisa (angina pectoris):

Hjartaverkur stafar af súrefnisskorti í hjartavöðva, oftast vegna þrengsla í kransæðum. Þessi þrengsli eru að jafnaði á grundvelli æðakölkunar.

 

Sjúkdómurinn varð fyrst algengur upp úr miðri 20. öldinni en einkenni hans hafa þó verið þekkt lengi og til er á ensku rúmlega tvö hundruð ára greinargóð lýsing á sjúkdómnum. Dæmigerður hjartaverkur kemur við áreynslu, oftast undir bringubeini sem getur leitt upp í kjálka, út í handleggi eða aftur í bak og líður hjá við hvíld á innan við tíu mínútum. Dæmigert er að Nitroglycerin undir tungu slái fljótt á verkinn og er ráðlagt að taka 1 tungurótartöflu á 3-5 mínútna fresti. Ef teknar hafa verið 3 tungurótartöflur án árangurs skal leita til læknis.

 

Verknum er gjarnan lýst sem herpingi eða þrýstingsónotum í brjóstinu. Andleg áreynsla t.d. í  tengslum við deilur eða ef sjúklingur reiðist getur líka framkallað slík einkenni. Þegar sjúklingur er í hvíld er oft lítið að finna við skoðun og hjartarit hans er þá oft alveg eðlilegt. Línuritsbreytingar á áreynsluprófi geta bent til kransæðasjúkdóms. Ef þessar breytingar eða einkenni koma fram við lítið álag á áreynsluprófum þykir oftast ástæða  til kransæðamyndatöku. Ef þrengslin reynast útbreidd eða í höfuðstofni vinstri kransæðar farnast sjúklingum best með hjáveituaðgerð. Ef hjartaverkurinn er vægur þ.e. framkallast aðeins við töluverða áreynslu getur sjúklingnum farnast vel á lyfjameðferð eingöngu en mörg góð kransæðalyf eru nú tiltæk.

 

Algeng lyf við hjartaverk eru úr flokki nítrata, betablokkara og kalsíumblokkara.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *