Kransæðastífla /hjartadrep:

Kransæðastífla orsakast oftast af því að blóðtappi eða segi hefur sest í kransæðaþrengslin og lokað æðinni. Þá verður skyndileg blóðþurrð í hjartavöðvanum sem nærist af viðkomandi æð. Af þessu hlýst hjartaverkur sem getur orðið mjög slæmur (þungur) og sár og getur staðið klukkustundum saman.

 

Kransæðastíflan gerist oft í hvíld. Sjúklingurinn er þá oft greinilega meðtekinn, sveittur, móður, oft haldinn  mikilli ógleði og kastar gjarnan upp. Á fyrstu klukkustundum er mest hætta á alvarlegum hjartsláttartruflunum. Þess vegna er mikilvægt að sjúklingurinn komist sem fyrst á spítala. Á LSH hefur frá árinu 2003 verið boðið upp á kransæðamyndatöku og kransæðavíkkun allan sólarhringinn alla daga vikunnar árið um kring og sú meðferð við bráðri kransæðstíflu hefur bætt horfur hjartasjúklinga hér á landi verulega. Horfur eftir kransæðastíflu ráðast mest af því hversu stórt drep kemur í hjartavöðvann og því grundvallaratriði að allri þekkingu og tækni sem fyrir hendi er sé beitt sem fyrst eftir að einkenni gera vart við sig. Þess vegna er nauðsynlegt að allur almenningur þekki vel einkenni kransæðastíflunnar og hafi strax samband við

lækni eða geri ráðstafanir til þess að sjúklingur með fyrrgreind einkenni kransæðastíflunnar sé fluttur sem fyrst á sjúkrahús.

 

Ef ekki er unnt að koma sjúklingi með bráða kransæðastíflu strax í hjartaþræðingu er oftast beitt blóðsegaleysandi lyfjameðferð.

 

Miklu máli skiptir að geta gefið þessi lyf sem fyrst og helst innan 4 – 6 klukkustunda frá því einkennin byrjuðu. Mest gagn er af þessum lyfjum á fyrstu klukkustundinni eftir kransæðastíflu sem er jafnframt önnur mikilvæg ástæða þess að sjúklingnum sé komið sem fyrst á spítala.

 

Ýmis lyf bæta einnig horfur sjúklinga með kransæðastíflu svo sem acetylsalicylsýra (Magnyl, Aspirín), betablokkerar, blóðþynningarlyf, Nitroglycerin og lyf sem kallast ACE blokkerar (Enapril,Captopril)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *