700 manns á ári

Ásgeir Þór Árnason

Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga, fagna 25 ára afmæli á hausti komanda, nánar tiltekið þann 8. október. Neistinn tilheyrir þessum samtökum, sem mynduð eru í kringum þá sjúkdóma sem algengastir eru og leiða flesta til dauða á Íslandi.

 

Ásgeir Þór Árnason„Ádegi hverjum lenda að meðaltali sjö einstaklingar á sjúkrahúsi vegna hjarta- og æðasjúkdóma, og tveir þeirra lifa ekki til næsta dags," segir Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri Hjartaheilla í spjalli við Neistann. „Þetta eru staðreyndir sem ekki er hægt að loka augunum fyrir. Þegar ég mæti til vinnu að morgni veit ég að þetta mun gerast næsta sólarhringinn. Allt að 700 manns deyja árlega af völdum hjarta- og æðasjúkdóma, eða tæp 40% þeirra sem látast ár hvert. Þetta eru til dæmis 35falt fleiri en deyja árlega af völdum umferðarslysa. Árið 2005 voru þetta um það bil 360 karlar og 330 konur."

 

Hjartaáföllin
Ásgeir segir að þegar Landssamtök hjartasjúklinga voru stofnuð hafi tíðni kransæðasjúkdóms, eða hjartaáfalla, verið í hámarki hér á landi. „Þá mátti reikna með því að 20 – 30 % þeirra sem fengju kransæðastíflu myndu ekki lifa það af. Síðustu ár hefur dánartíðnin við kransæðastíflu lækkað og er í dag einungis um 5%. Þetta þýðir að 95% sjúklinga með hjartaáfall sem komast á sjúkrahús útskrifast þaðan. Samt eru kransæðasjúkdómar enn langalgengasta dánarorsökin þegar horft er til
einstakra sjúkdóma, en þeir valda um 20% allra dauðsfalla meðal Íslendinga, bæði karla og kvenna, enn þann dag í dag.

 

Árið 2005 dóu um 200 íslenskir karlar og 150 konur úr kransæðasjúkdómi. Þessi alvarlega staðreynd blasir við þó að undanfarna áratugi hafi unnist margir sigrar við að fyrirbyggja og meðhöndla kransæðasjúkdóma og aðra hjartasjúkdóma. Sem dæmi um framfarir má nefna að með öflugu forvarnarstarfi hefur tekist að draga úr áhrifum helstu áhættuþátta kransæðasjúkdómsins. Helmingi færri reykja en þegar mest var, betri stjórn hefur náðst á háum blóðþrýstingi og blóðfitu landsmanna eins og staðfest hefur verið í rannsóknum Hjartaverndar. Lyfjameðferð hefur batnað og það hefur meðferð á hjartadeildum og endurhæfing einnig gert."

 

Guðmundur Bjarnason formaður Hjartaheilla afhendir Magnúsi Péturssyni forstjóra LSH bréf þess efnis að samtökin vilji tryggja að komið verði upp þriðja hjartaþræðingartækinu. Fyrir aftan þá standa, f.v. Ásgeir Þór Árnason, Sveinn Guðmundsson, Guðmundur Þorgeirsson og Gestur Þorgeirsson.Þriðja þræðingarstofan
Á síðustu áratugum hafa komið fram margar áhrifaríkar aðferðir við að greina og meðhöndla hjartasjúkdóma. „Kransæðaskurðaðgerðir, þar sem blóði er veitt fram hjá þrengslum í kransæðum, hafa orðið ein algengasta skurðaðgerð á vestrænum sjúkrahúsum," segir Ásgeir. „Einnig hafa orðið miklar framfarir í aðgerðum á þrengdum eða lekum hjartalokum. Hjartaþræðingum er mjög mikið beitt og segja má að það áhugaverðasta hjá Hjartaheillum um þessar mundir sé nýgerður tímamótasamningur við Landspítalann um að koma þar upp þriðju þræðingarstofunni. Hún mun einnig nýtast börnum mjög vel, en með þessu verður hægt að framkvæma hjartaþræðingar á tveimur stofum og gera raflífeðlisfræðilegar aðgerðir á þriðju stofunni. Við hlið þræðingarstofunnar nýju verða legurúm, sem er alveg nýtt fyrirkomulag. Þetta léttir á hjartadeildunum, því það verður ekki kallað á sjúklinginn inn á deild, þar sem hann bíður í rúmi eftir því að fara niður í aðgerð og síðan aftur upp á deild þar sem fylgst er með honum, heldur verður þetta í formi dagdeildar þar sem sjúklingar verða lagðir í rúm við hlið þræðingarstofunnar. Álagið mun sem sé léttast verulega og komið verður í veg fyrir að „flöskuhálsar" myndist við þræðingarnar eins og svo oft hefur gerst. Hjartaheill afhentu á   dögunum forstjóra LSH skjal með fyrirheiti um 25 milljóna króna framlag til þessa verkefnis, eða eina milljón fyrir hvert ár sem við höfum starfað."

 

Ásgeir segir þó helstan árangur í baráttunni gegn hjarta og æðasjúkdómum byggjast á forvörnum og aftur forvörnum. „Eitt af því sem við höfum gert er að fara um landið og bjóða almenningi upp á blóðþrýstings- og blóðfitumælingar. Við höfum núna heimsótt um fimmtíu staði á landinu og fundið að meðaltali um 25% einstaklinga í hverri mælingu sem þurfa nánari athugunar við. Oft á tíðum kemur þetta fólki mjög á óvart, sérstaklega þegar um er ræða ungt fólk sem stríðir ekki við offitu eða annað þvíumlíkt. En þá eru aðrir þættir að koma inn í myndina, eins og mataræði og erfðir, sem eru mjög miklar í þessum sjúkdómum."

 

Hjartveiku börnin
Þó það sé sjaldgæfara en hjá fullorðnum geta hjartasjúkdómar einnig lagst þungt á ungt fólk og börn. „Möguleikar til greiningar á meðfæddum hjartasjúkdómum hafa batnað til mikilla muna og miklar framfarir hafa orðið í hjartaskurðlækningum við meðfæddum hjartagöllum, sem hafa bætt horfur þessara yngri sjúklinga mikið," segir Ásgeir þegar talið snýst að hjartveikum börnum. „Í gamla daga voru ekki til nein greiningartæki og þá fæddust mörg börn sem voru með hjartagalla
og annað hvort dóu eða lifðu í einhvern tíma uns gallinn fór að hrjá þau. En tæknin sem við búum núna yfir til að greina hjartagalla er orðin mjög þróuð og góð, og þannig höfum við getað fækkað þeim tifandi tímasprengjum sem eru á vappi úti í þjóðfélaginu."

 

Ásgeir verður hugsi þegar nefnt er að Neistinn var ekki stofnaður fyrr en tólf árum seinna en Hjartaheill og gekk í samtökin ári síðar. „Já, það er vissulega skrítið að börnin hafi ekki komist í sérstakt kastljós fyrr," segir hann. „En það hefur síðan í reynd verið þannig að menn hafa leyft Neistanum að vera mjög sjálfstæða deild innan Hjartaheilla. Neistinn hefur fengið að gera hluti sem aðrar deildir fá ekki að gera, en alls eru deildirnar ellefu eftir gamla kjördæmaskipulaginu. Neistinn tekur í raun til alls landsins og eitt af því sem ég hef áhuga á að sjá gerast er að hver deild úti á landi fái einn fulltrúa frá Neistanum í stjórn sína. Þannig yrði Neistinn í beinum tengslum við deildina á svæðinu og getur betur annast málefni hjartveikra barna þar. Það er kominn vísir að þessu á Akureyri, enda hefur Neistinn náð góðum árangri í Eyjafirðinum. Ég tel
að þetta eigi eftir að skipta enn meira máli í framtíðinni. Það er mikið að gerast í kerfinu varðandi réttindamálin, miklar breytingar þar sem stendur til að flytja málin frá ríki til sveitarfélaga.

 

Neistinn mun að mínum dómi ávallt njóta sérstöðu, enda málefni barna talsvert ólík málefnum fullorðinna. Við erum í flestum tilfellum að tala um einstaklinga sem eru margir hverjir nýfæddir og geta ekki sagt til um hvar þeim er illt. Mér skilst að um 1.7% fæddra barna séu það sem við köllum hjartabörn, og ég má til með að segja frá því að með tilkomu nýju þræðingarstofunnar verður hægt að þjónusta þau enn betur og það verður hægt að gera ýmislegt hér sem áður hefur
þurft að gera erlendis. Svo langar mig einnig til að lýsa ánægju minni yfir því að Guðrún  Bergmann Franzdóttir formaður Neistans skuli vera starfsmaður á skrifstofu Hjartaheilla. Það er alveg frábært þegar leitað er til okkar varðandi aðstoð við hjartveik börn að hafa manneskju eins og hana á staðnum."

 

Baráttan heldur áfram
Ásgeir ítrekar að enda þótt mikið hafi áunnist í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma megi fólk ekki sofna á verðinum. „Því er spáð í nálægum löndum að fjöldi þeirra sem munu lifa með afleiðingum hjartasjúkdóma og hjartaáfalla muni vaxa verulega á næstu áratugum," segir hann. „Í Bretlandi er því til dæmis spáð að innlögnum á sjúkrahús vegna hjartabilunar og takttruflana svo sem gáttatifs muni því fjölga um 40 – 50% á næstu 25 árum. Líklegt þykir að sama þróun verði hér á landi. Með öðrum orðum, þótt nýjum tilfellum kransæðasjúkdóms í yngri aldurshópunum fari fækkandi, þá lifa fleiri með sjúkdóminn vegna betri meðferðar og langflestir þeirra fara aftur út í lífið af fullum krafti. Um síðir geta þó komið fram ýmsir fylgikvillar sjúkdómsins, sem glíma verður við og því er reiknað með verulegri fjölgun þeirra sjúklinga. Þessum hópi verður að sinna, og hann mun þurfa áframhaldandi lyfjameðferð og eftirlit vegna síns sjúkdóms og meðal annars vegna þessa mun þörfin fyrir þjónustu til handa hjartasjúklingum aukast á komandi árum.

 

Öll þessi nýju lyf, aðgerðir og lækningatæki kosta auðvitað mikla peninga en fyrir þann kostnað fæst ávinningur sem alls ekki má vanmeta. Fyrir einstaklinginn er það ómetanlegt að ná aftur heilsu og geta farið aftur út á vinnumarkaðinn. Af því er einnig að sjálfsögðu beinn þjóðhagslegur ávinningur. Sá hluti bókhaldsins gleymist býsna oft. Við verðum að hafa í huga að hverjum einstaklingi er aðeins úthlutað eitt líf. Og það verður að hafa góðar gætur á þesu lífi."

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *