Hvað eru kronotropismi, inotropismi og dromotropismi í starfsemi hjartans?

Hjartað í okkur hefur innbyggðan gangráð sem myndar rafboð um það bil 100 sinnum á mínútu. Það gerir hjartanu mögulegt að starfa án utanaðkomandi áhrifa frá taugum eða hormónum. Þetta sést best ef hjarta er flutt úr einum einstaklingi í annan en þá þarf það að starfa án tengsla við taugakerfið þar sem enn er ekki til tækni til að tengja taugar hjartaþegans við nýtt hjarta.

 

Hjartað í hjartaþeganum slær því yfirleitt um það bil 100 sinnum á mínútu og einungis nokkur hormón eða atriði eins og hiti og kuldi geta breytt hjartslættinum smávægilega. Þetta sýnir að til þess að unnt sé að breyta hjartsláttartíðninni eða hjartsláttarkraftinum þarf hjartað aðstoð frá taugakerfinu.

Hjartað er dælan sem sér hinum ýmsu hlutum líkamams fyrir súrefnisríku blóði. Þarfir hinna mismunandi líkamshluta eru breytilegar frá einum tíma til annars. Til að geta annað þessum mismunandi þörfum þurfum við að geta breytt starfsemi hjartans, látið það slá hratt og kröftuglega þegar þörf krefur en annars hægt og léttilega. Einn af þessum breytilegu þáttum er tíðni gangráðsins og þar með tíðni hjartsláttarins. Þessi þáttur kallast chronotropismi. Annar breytilegur þáttur er samdráttarkraftur hjartans, það er hversu kröftuglega hjartað dælir blóðinu. Þessi þáttur kallast inotropismi. Þriðji þátturinn er hversu hratt boðin sem gangráðurinn myndar dreifast yfir hjartavöðvann, það er hvað hjartslátturinn tekur langan tíma, og þessi þáttur kallast dromotropismi. Fjórði þátturinn varðar hversu næmt hjartað er gagnvart utanaðkomandi ertingum og kallast sá þáttur bathmotropismi.

Þegar verið er að fjalla um áhrif taugaboða og/eða hormóna á hjartað eru ofannefnd hugtök oft notuð. Taugar sem tilheyra sympatiska taugakerfinu (drifkerfinu) verka örvandi bæði á hjartsláttartíðnina og samdráttarkraftinn; hjartað slær bæði hraðar og kröftugar þegar boð berast um það til hjartans frá sympatíska taugakerfinu. Þetta kallast jákvæð (pósitív) chronotrop og inotrop áhrif. Taugaboð sem berast eftir parasympatíska taugakerfinu, með vagus-tauginni (flökkutauginni), valda hægari hjartslætti og er þá talað um að þau hafi neikvæð (negativ) chronotrop áhrif. Parasympatíkus hægir einnig á dreifingu boða yfir hjartavöðvann en sympatíkus hraðar boðflutningi yfir hjartað. Parasympatíkus hefur því neikvæð dromotrop-áhrif en sympatíkus jákvæð.

Líkamshiti er einn þeirra þátta sem hefur áhrif á hjartsláttinn, til dæmis hefur kæling á hjartanu neikvæð chronotrop-áhrif, neikvæð dromotrop áhrif og jákvæð inotrop áhrif. Þetta þýðir að kælingin hægir á hjartsláttartíðninni og dreifingu boðsins yfir hjartað en eykur hjartsláttarkraftinn.

Heldur hefur dregið úr notkun þessara hugtaka í rituðu máli og eru þau orðin sjaldséðari til dæmis í nýjum erlendum kennslubókum þar sem fjallað er um lífeðlisfræði hjartans. Þar er yfirleitt talað um aukna hjartsláttartíðni frekar en pósitív chronotrop áhrif.

Upplýsingar Vísindarvefurinn

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *