Borðaðu hollan mat og haltu kjörþyngd

Dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir, dósent, Rannsóknastofa í næringarfræði við HÍ og LSH

Mataræði hefur áhrif á líkamlegt heilbrigði og andlega líðan. Haustið 2006 voru gefnar út endurskoðaðar ráðleggingar um mataræði og næringarefni fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri, þar sem áhersla er lögð á fjölbreytt mataræði í hæfilegu magni. Ráðleggingarnar eru endurskoðuð útgáfa fyrri manneldismarkmiða, þar sem tekið var mið af nýjum   vísindarannsóknum á sviði næringar og heilsu og niðurstöðum kannana á mataræði  Íslendinga, norrænum næringarráðleggingum og ráðleggingum annarra þjóða.

 

Dr. Ingibjörg Gunnarsdóttir, dósent, Rannsóknastofa í næringarfræði við HÍ og LSHHjartavæn næring – hvað skiptir mestu máli?

Margir af helstu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma tengjast næringu á einn eða annan hátt. Þar má helst nefna blóðfitu (kólesteról og þríglyseríð), háþrýsting og ofþyngd. Þessir áhættuþættir vega þungt er kemur að ákvörðun ráðlegginga, enda markmið ráðlegginganna að minnka líkur á alvarlegum sjúkdómum á borð við hjarta- og æðasjúkdóma. Í töflu 1 má sjá ráðleggingar Lýðheilsustöðvar um mataræði ásamt stuttum texta sem vísar til þess hvernig

hver ráðlegging fyrir sig tengist hjartaheilsu.

 

Hugum að þyngdinni

Offita er vaxandi vandamál víða um heim og tengist meðal annars aukinni áhættu hjarta- og æðasjúkdóma. Viðvarandi ofneysla fæðu samfara lítilli hreyfingu leiðir til upphleðslu orkuforða í líkamanum.  Rétt samsetning fæðunnar auk skammtastærða í samræmi við orkuþörf er grundvallaratriði, auk daglegrar hreyfingar.

 

Mikilvægt er að innbyrða ekki fleiri hitaeiningar en þörf er fyrir. Umfram hitaeiningar, í formi orkuefnanna þriggja, próteina, kolvetna og fitu, fara í  fituforðabúr líkamans.

 

Mynd 1Mjög auðvelt er að "borða yfir sig" af fituríkum mat þar sem fitan gefur um það bil helmingi fleiri hitaeiningar per gramm heldur en kolvetni og prótein. Þetta þýðir að ef fituríkra matvæla er neytt þurfa skammtarnir að vera smáir til að ekki sé hætta á að orkuinntaka verði meiri en  sem nemur orkuþörf.  Sem dæmi má nefna að hitaeiningafjöldi í einu stykki af vínarbrauði (fituríkt) gefur jafn margar hitaeiningar og þrjár samlokur með kotasælu og grænmeti (mynd 1).

 

Borða hollan matÁ mynd 2 má sjá samanburð á skammtastærðum sem gefa sambærilegt magn hitaeininga, annars vegar djúpsteiktan fisk með frönskum, kokteilsósu og majóneshrásalati (fituríkt) en hins vegar soðna ýsu með kartöflum, fersku og soðnu grænmeti og sýrðum rjóma. Það er mikilvægt að reyna að gæta hófs í mataræði, sérstaklega með tilliti til fituneyslu, og reyna að auka líkamshreyfingu, til dæmis með gönguferðum, hjólreiðum og þess háttar. Lesendum skal bent á að unnt er að nálgast bækling um ráðleggingar um mataræði og hreyfingu á tölvutæku formi á heimasíðu Lýðheilsustöðvar auk annars fræðsluefnis tengdu næringu og heilsu http://www.lydheilsustod.is/naering.

 

Einnig er bent á frekari fróðleik á heimasíðum Næringarstofu Landspítala http://www.landspitali.is/naering og Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands http://www.naering.hi.is/.

 

Úr Velferð blaði Hjartaheilla, landssamtaka hjartasjúklinga mars 2008.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *